151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæða um tilgreinda séreign.

700. mál
[17:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek eftir því að sumir leggja mikla áherslu á þessi tvö atriði, réttindaáherslutímann, frá 18 eða 16 árum, og svo hitt sem varðar uppfærslu miðað við vísitölur og þróun verðlags í landinu. Þetta eru hins vegar ekki atriði sem ná máli á móti öðru því sem fólk hefur skoðun á í þessu máli. Aðrir hagsmunaaðilar í þessu máli eru með mjög sterkar skoðanir á allt öðrum atriðum sem eru í mínum huga miklu stærri. Ég veit ekki hvort menn hafa tekið eftir því að það stendur til að stefna ASÍ og SA fyrir að hafa verið að semja um þessi mál með þeim hætti sem gert var. Ég tók ekki betur eftir en að Vilhjálmur Birgisson og Ragnar Þór Ingólfsson boðuðu það fyrir hönd Verkalýðsfélags Akraness og VR væntanlega, vegna þess að þeir vilja að þetta fari allt saman í séreignasparnaðinn, viðbótarlífeyrissparnaðinn. Opinberu félögin eru mjög ósátt við þetta allt saman vegna þess að þau líta þannig á að þau verið þvinguð til að fara að bjóða upp á tilgreinda séreign sem þau áttu ekki von á og höfðu hvergi samið um. (Forseti hringir.) Þetta eru miklu stærri atriði en þau tvö sem verið er að bera upp hér og þetta eru flókin atriði og það er erfitt að komast til botns í þessu þannig að allir séu sáttir. Það var nú meginmál mitt í framsöguræðunni hér.