151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæða um tilgreinda séreign.

700. mál
[17:06]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Já, það getur verið vandlifað í þessum heimi. Ég er þeirrar skoðunar að þingið eigi að taka sér sitt svigrúm til að haga lagasetningu eftir sínu höfði og að það eigi gjarnan að hlusta á hagsmunaaðila en ekki láta þá segja þinginu fyrir verkum. Hins vegar er þetta mjög stórt og mikið mál og mörg álitaefni. Það er kannski plagsiður, sem ég ætla ekkert að setja á herðar núverandi hæstv. fjármálaráðherra, að gefa hagsmunaaðilum of mikið undir fótinn með það, í samskiptum ríkisins við þá, að þeir ráði för fullkomlega. Ég held að það sé misráðið af því að auðvitað er það þingið, hafandi tekið tillit til athugasemda, sem á að setja lögin. Það getur auðvitað verið varasamt ef einhver samtök, jafnvel þó að það séu mjög áhrifamikil og fjölmenn samtök, telja sig hafa húsbóndavald yfir þinginu. (Forseti hringir.) Hæstv. ráðherra heyrir að ég er ekki beinlínis með spurningu heldur hugleiðingar í þessu tilefni.