151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæða um tilgreinda séreign.

700. mál
[17:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú kannski tvennt sem ég ætla sérstaklega að staldra við í þessari ræðu. Það er annars vegar það að hv. þingmaður leggur til að það verði bara ákveðið, alveg án þess að um það hafi verið samið, að einhverjir hópar í samfélaginu utan kjarasamninga skuli sæta ákvörðun Alþingis um það hvert lífeyrisréttindahlutfallið eigi að vera — og það verða allir sáttir við það, segir hv. þingmaður. Ég segi: Það er ekki þannig. Í samráðsferlinu vegna þessa máls hafa einmitt komið fram mjög harkalegar athugasemdir við það að Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands geti fyrir hönd þriðja aðila, sem ekki eigi í aðildarviðræðunum, tekið ákvörðun um svona efni og við erum að fyrirbyggja það með ákvæðinu um að þetta sé háð því að menn hafi samið um þetta í kjarasamningum. Svo er það auðvitað eins og hver annar brandari ef hv. þingmaður heldur virkilega að full sátt yrði um þetta ef þetta færi allt í viðbótarlífeyrissparnað. Mér finnst það reyndar persónulega bara ágætishugmynd. Ég hefði ekkert á móti því. Það var hugmynd Samtaka atvinnulífsins í upphafi. En ASÍ vildi það ekki og er búið að leggja á sig margra ára vinnu til að koma í veg fyrir að það verði þannig. Þegar hv. þingmaður nær þessu fram, eða kannski bara seinna í dag, fær hann því kannski annan tölvupóst frá ASÍ þar sem það verður áréttað við hann að ASÍ muni aldrei láta það yfir sig ganga sem hv. þingmaður hélt að almenn samstaða gæti tekist um hér í þingsal og annars staðar í þjóðfélaginu.