151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæða um tilgreinda séreign.

700. mál
[17:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin. Ég held að það sé komið í ljós að þetta er bara algjör misskilningur hjá fjármálaráðherra, verkalýðshreyfingunni og Samtökum atvinnulífsins. Ég held að þessir aðilar þurfi bara að setjast niður og semja um þetta. Ef fjármálaráðherra er sammála því að þetta fari í sérstaka séreign, viðbótarlífeyrissjóðinn, er ég viss um að verkalýðshreyfingin er algerlega sammála því, a.m.k. stór hluti af henni. Ég get ekki ímyndað mér annað. Ég er kannski ekki alveg sammála því að Samtök atvinnulífsins yrðu sammála þessu vegna þess að það virðist vera eins og það eigi að setja þetta inn í sérstakan sparnað og lífeyrissjóðirnir eigi að sjá um þetta. Það er ekki ásættanlegt vegna þess að lífeyrissjóðunum ráða Samtök atvinnulífsins. Þó að verkalýðshreyfingin fái að fljóta með þá eru það þau samtök sem ráða þessu og þau vilja hafa þetta. Mér hugnast ekki, og ég veit að það eru fleiri sem hugnast það ekki, að Samtök atvinnulífsins séu að gambla á markaði með þennan sparnað.