151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæða um tilgreinda séreign.

700. mál
[17:58]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að það kveikir aðeins í mér þegar farið er að tala um veldisvöxt og aðra slíka þætti úr ræðustóli Alþingis, þá langar mig aðeins að eiga svolítið samtal við hv. þingmann í framhaldi af hans áhugaverðu hugleiðingum. Það vakna margar spurningar þegar fjallað er um lífeyriskerfið. Svo ég grípi niður á nokkrum stöðum í því sem hv. þingmaður vék að, þá er eitt þessi 3,5% uppgjörstala, þ.e. að sjóðirnir eru gerðir upp í tryggingarfræðilegu tilliti, eignir og skuldir og miðað er við þá tölu. Það er á það að líta að eignirnar eru til miklu skemmri tíma en skuldbindingarnar. Skuldbindingarnar ná áratugi fram í tímann. Þetta er mjög mikið viðfangsefni og til þess eru náttúrlega tryggingastærðfræðingar, til að leysa úr þessu.

Mig langar sömuleiðis að nefna, vegna umræðu um veldisvöxt og stækkun á kerfinu, að það blasir við að sjóðirnir eru nú þegar vaxnir íslensku hagkerfi yfir höfuð í þeim skilningi að hið mikla ráðstöfunarfé sem þeir þurfa að setja í vinnu í fjárfestingum — það eru ekki ótæmandi kostir á slíkum fjárfestingum hér. Eðlileg sjónarmið um áhættudreifingu kalla á að ráðstöfunarfénu sé að verulegu leyti varið til fjárfestinga á erlendri grundu. 36. gr. laganna fjallar um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna. (Forseti hringir.) Hún var upphaflega hugsuð þannig að stærsta áhættan (Forseti hringir.) sem lífeyrissjóðirnir stæðu frammi fyrir væru erlendar fjárfestingar. (Forseti hringir.) En núna er allt önnur sýn og menn (Forseti hringir.) hafa gert sér grein fyrir því að stærsti áhættuþátturinn eru innlendar fjárfestingar. (Forseti hringir.) Ég minni á norska olíusjóðinn sem allur er fjárfestur erlendis.

(Forseti (BHar): Forseti minnir hv. þingmenn á tímamörkin.)