151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæða um tilgreinda séreign.

700. mál
[18:08]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Frú forseti. Ég hef setið og hlýtt á þessa umræðu með athygli, ég hef setið hér úti í sal og hlustað. Hún hefur verið fróðleg og ég heyri það á öllu að þetta frumvarp fer á góðan stað þar sem er hv. efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og ég vænti góðs af þeirri vinnu sem þar á eftir að verða. Ég kem hér fyrst og fremst upp til þess að árétta það sem hefur komið fram í máli ýmissa þingmanna að ástæða er til að hafa áhyggjur af því að hér hefur ekki átt sér stað það samráð við samtök launafólks, ASÍ, sem hefði þurft að vera. Eiginlega er þetta ekki samráð, þetta er samráðslíki. Þetta er þykjustusamráð eins og kemur fram í bréfi sem við þingmenn fengum sent í dag frá forseta Alþýðusambandsins, Drífu Snædal, sem ég kem hér upp til að taka undir og svo langar mig til að árétta ýmislegt sem kemur fram í því bréfi.

Það er alveg rétt, sem kom fram áðan hjá hv. þm. Ólafi Ísleifssyni, að það voru framsýnir menn sem komu á fót þessu lífeyrissjóðakerfi og með þeim hætti sem því var komið á fót. Það sem var kannski ekki síst dálítið merkilegt við þetta var það ríka og mikla samráð sem var haft af hálfu ríkisvaldsins og samtök launamanna og samtök atvinnurekanda tóku höndum saman. Mér virðist að núna sé því miður brotið blað í því að slíkt samráð hefur ekki átt sér stað. Það er ekki hægt að afgreiða Alþýðusamband Íslands eins og hagsmunasamtök, lobbíista eða eitthvað því um líkt, heldur er hér um að ræða samtök launamanna sem eiga þennan lífeyri. Í bréfi Drífu Snædal segir, með leyfi forseta:

„Af greinargerð má skilja að fullt samráð hafi verið haft við verkalýðshreyfinguna en það er alvarlegt mál að halda slíku fram þegar reyndin er önnur. Þar með brýtur fjármálaráðherra blað í sögunni með því að fara fram með tillögur um breytingar á lífeyriskerfinu án samráðs við fulltrúa vinnandi fólks en lætur í veðri vaka að svo hafi verið.“

Hér er sem sé um að ræða ný vinnubrögð í samskiptum fulltrúa ríkisvaldsins, fulltrúa ríkisstjórnarinnar við samtök launamanna. Þetta mál er í tengslum við kjarasamningana sem voru 2019 en svo virðist sem ferðin hafi verið notuð til að lauma inn ýmsu sem ekki hafði verið rætt um. Samráðslíki.

Það er aðallega þrennt sem ASÍ mótmælir harðlega og ég vil fá að lesa það hér upp, með leyfi forseta:

„Fyrst ber að nefna hækkun lífeyrisgreiðslualdurs úr 16 árum í 18 ár sem gengur í berhögg við kjarasamning ASÍ og SA um lífeyrismál. Fyrir þessari aldursmismunun eru engin haldbær rök. Þessum áformum fékk verkalýðshreyfingin fyrst veður af þegar frumvarpið var lagt fram á Alþingi.“

Margir hv. þingmenn hafa einmitt furðað sig á þessari breytingu. Einnig segir í bréfi Drífu og margir þingmenn hafa líka furðað sig á því:

„Í öðru lagi er lagt til að breyta verðbótum lífeyrisréttinda þannig að þær reiknast árlega í stað mánaðarlega. Þessi breyting kann að láta lítið yfir sér en kann að hafa þau áhrif á lífeyrisréttindi fólks að þau taki ekki leiðréttingum vegna verðbólgu jafnóðum. Frumvarpið tekur ekki af vafa um hvort slíkt yrði leiðrétt eftir á eða ekki.“

Hv. þm. Ólafur Ísleifsson vék einmitt að áhyggjum sem eldri borgarar hafa viðrað út af þessum áformum, réttilega. Það var á hæstv. fjármálaráðherra að skilja hér áðan að ekki væri ástæða til að gera mikið veður út af þessu enda tilheyrði verðbólga liðinni tíð. Það væri eitthvað sem hefði tíðkast í hans ungdæmi en væri nú löngu liðin tíð. Ja, guð láti gott á vita og vonandi hefur hæstv. ráðherra rétt fyrir sér í þeim efnum. En ég er nú aðeins eldri en hæstv. ráðherra og ég kannast við þennan draug, rétt eins og ég held að aðrir þingmenn á svipuðum aldri og ég er geri, og ég er ekki viss um að við höfum alveg séð það síðasta af þeim draug. Það þriðja sem Alþýðusamband Íslands mótmælir harðlega er, með leyfi forseta:

„Í þriðja lagi er veitt áframhaldandi undanþága í lögum frá 15,5% lífeyrisframlagi með ótímasettu bráðabirgðaákvæði. Kemur þetta til vegna lífeyrismála sjómanna sem enn er ósamið um og er framlag í lífeyrissjóði þeirra aðeins 12%. Framsýn telur rétt að sett séu tímamörk á bráðabirgðaákvæðið, svo sem eðlilegt er, þannig að sjómönnum og viðsemjendum þeirra gefist kost á að ganga frá kjarasamningi þar sem sjómenn njóta sömu lífeyrisréttinda og annað launafólk.“

Virðulegi forseti. Ég vildi fyrst og fremst koma hér upp til að halda á lofti þeim sjónarmiðum sem koma fram í bréfi forseta Alþýðusambands Íslands og taka undir þau. Ég vænti þess að þau sjónarmið sem viðruð eru í bréfi forseta Alþýðusambandsins hafi ríkan hljómgrunn í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.