151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæða um tilgreinda séreign.

700. mál
[18:17]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu. Ég verð í upphafi sömuleiðis að gera þá játningu að hér er ekki um eiginlegt andsvar að ræða heldur það sem mætti kalla samsvar af því að ég deili ýmsum áhyggjum sem hv. þingmaður reifaði hér. Þar skal ég fyrst nefna spurninguna um samráð. Höfum í huga að það var á grundvelli kjarasamninga í maí 1969 sem aðilar vinnumarkaðarins settu lífeyriskerfið á laggirnar í raun. Kjarasamningarnir voru undirritaðir 19. maí 1969. Ég man vel eftir árinu 1969 eins og hv. þingmaður gerir vafalaust. Nema það að ríkisstjórnin gerðist eins konar ábyrgðarmaður þessara samninga undir forystu Bjarna heitins Benediktssonar forsætisráðherra. Meginatriði þessa samkomulags aðila vinnumarkaðarins á þeim tíma, þar sem eiginlega var ekki um það að ræða að semja um auknar launagreiðslur vegna þess að við vorum þá í alvarlegri efnahagslegri niðursveiflu, var að félagsmenn innan vébanda Alþýðusambands Íslands höfðu rétt og skyldu til að vera félagsmenn í lífeyrissjóði. Árið 1974 var þetta atriði lögfest og síðan útvíkkað 1980 þannig að allir eiga að vera í lífeyrissjóði og eru í lífeyrissjóði frá þeim tíma.

Ég verð að viðurkenna að ég er mjög hugsi yfir yfirlýsingum forystumanna Alþýðusambandsins, svo ég vísi sérstaklega til forseta Alþýðusambandsins, yfir skorti á samráði. Hún andmælir því sem sagt er í greinargerð með frumvarpinu að haft hafi verið samráð við Alþýðusambandið vegna þess að hingað til hafa ríkisstjórnir litið þannig á að það væri farsælast, við getum kannski orðað það þannig, að hafa samráð um lífeyrismálin (Forseti hringir.) við aðila vinnumarkaðarins og maður veltir fyrir sér hvort hér sé orðin stefnubreyting, ekki síst í ljósi ummæla hæstv. ráðherra fyrr í dag.