151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæða um tilgreinda séreign.

700. mál
[18:20]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa litlu sögustund. Við þetta má kannski bæta: Úr því að forsætisráðherrann Bjarni Benediktsson var nefndur er rétt að halda líka á lofti nöfnum eins og Gylfi Þ. Gíslason, Hannibal Valdimarsson og Eðvarð Sigurðsson, svo að einhver nöfn af handahófi séu nefnd. Aðalatriðið er það að á þessum tíma, sem voru erfiðleikaár í íslensku samfélagi, tóku atvinnurekendur og verkalýðshreyfingin höndum saman og ríkisstjórnin náði að leiða þessi öfl saman, bar gæfu til þess að byggja upp traust og bar gæfu til þess að bregðast ekki því trausti. Í áðurnefndu bréfi er forseti Alþýðusambandsins nokkuð harðorð. Hún er ansi harðorð. Hún segir m.a., með leyfi forseta:

„Í því frumvarpi sem nú liggur fyrir hefur hins vegar verið lætt inn öðrum breytingum sem verkalýðshreyfingin hefur ekki verið höfð til samráðs um og skerða lífeyrisrétt almennings og þar með kjör vinnandi fólks.“

Þetta eru býsna hörð orð frá forseta Alþýðusambandsins og mér finnst einboðið að hv. efnahags- og viðskiptanefnd taki þessi orð mjög alvarlega og reyni að lagfæra þetta.