151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæða um tilgreinda séreign.

700. mál
[18:24]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta var að verða allt of mikið samlæti og gagnkvæmt kjass að mati hv. þingmanns þannig að hann þurfti að enda þetta með óþarfri pillu, að mínu mati, í garð þess flokks sem ég er þingmaður fyrir og hefur alltaf lagt áherslu á ábyrga hagstjórn og ábyrgt efnahagslíf. En það er alveg rétt að við erum ekkert komin út úr verðbólguhættu. Manni virðist stundum að hagfræðingar og þeir sem véla með efnahagsmálin líti á verðbólgu sem tölur á blaði. En þetta er líf fólks, þetta er líf og heilsa fólks, lífið á heimilunum í landinu. Þetta er líf gamla fólksins og þetta er líf fjölskyldnanna og þetta getur skipt sköpum. Lítið verðbólguskot skiptir algerlega sköpum á mörgum heimilum um það hvernig þeim farnast og hvort þau ná að fleyta heimilisrekstrinum yfir næstu mánaðamót, svo að dæmi sé tekið. Hér er því verið að leika afskaplega hættulegan leik að mínu mati sem getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar á kjör almennings í landinu.