151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

endurskoðuð landsskipulagsstefna 2015--2026.

705. mál
[21:24]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta andsvar. Ég veit að við deilum skoðunum í þessum málum um mikilvægi skipulagsgerða með tilliti til loftslagsmála. Hv. þingmaður spyr hvaða verkfæri sé um að ræða við mat út frá loftslagsmálum. Þau verkfæri sem hér á að móta eru m.a. leiðbeiningar sem Skipulagsstofnun mun gera um þetta. Hér er líka um að ræða að mat á umhverfisáhrifum áætlana taki klárlega til loftslagsmála og það þurfi að skrifa þau betur inn og þá sérstaklega reglugerðir og tryggja í gegnum það að litið sé til loftslagsmála við skipulagsgerð. Síðan er gert ráð fyrir því að með þessu móti séum við þá að setja þessi tilmæli til sveitarstjórnanna þannig að þetta verður kannski einn af stóru þáttunum í að reyna að meta áætlanir út frá loftslagsmálum sem er að mínu mati mjög mikilvægt og ég og hv. þingmaður deilum þeirri skoðun.