151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

endurskoðuð landsskipulagsstefna 2015--2026.

705. mál
[21:36]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg tilbúinn til að taka þá umræðu sem hv. þingmaður nefnir um grunninnviðina við betra tækifæri. Það er jafnvel eitthvað sem þyrfti að skoða í heild sinni. Ég vil benda á frumvarp mitt um breytingar á skipulagslögum sem liggur fyrir þinginu þar sem verið er að setja málefni raflína í aðeins annað form, þ.e. með sérstakri nefnd sem í sitja fulltrúar viðkomandi sveitarfélaga sem raflínan fer í gegnum og fulltrúi ríkisins, þ.e. Skipulagsstofnunar, sem leiðir þá vinnu. Ég held að það sé kannski ekkert vitlaust að sjá hvernig það gerir sig, verði það frumvarp að lögum, þ.e. að hafa fyrirkomulagið með því móti. Mér finnst hins vegar ekki skynsamlegt að fara of hratt í þessar breytingar. Almennt vil ég segja að mér finnst skipta alveg gríðarlega miklu máli að við tryggjum umhverfisverndina þegar kemur að þeim framkvæmdum sem um er að ræða og breytingum á skipulagi og þar fram eftir götunum. Í frumvarpi sem er á dagskrá þingsins hér á eftir erum við að gera ákveðnar einfaldanir og straumlínulaga þætti sem snúa að umhverfismati, sérstaklega umhverfismati framkvæmda, án þess að ganga á rétt almennings til að taka þátt í ferli mats á umhverfisáhrifum. Ég held að við getum oft gert betur í því að ná því fram að einfalda hluti en við verðum líka að passa að það gangi ekki gegn markmiðum um umhverfis- og náttúruvernd. Það er lykilatriði í mínum huga.