151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[16:04]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og fólk getur lesið í umsögnum voru ekki allir á eitt sáttir um að þarna væri mikill skýrleiki á ferðinni. Ég held að hv. þingmaður sé ekki heldur alveg fullkomlega skýr á því hvernig þetta á allt að ganga fyrir sig. Ef viðmiðið er t.d. fjárhæðir þá getur það verið þannig, eins og fram kom á mörgum fundum í nefndinni þegar fjallað var um þetta mál, að það getur litið þannig út í byrjun að mál sé smátt og lágar upphæðir undir, en síðan kemur við nánari rannsókn í ljós að málið er stórt og mikið. Og það getur líka verið öfugt. Hvað sér hv. þingmaður fyrir sér með þessu, býður þetta ekki upp á einhvern hringlandahátt á milli Skattsins og héraðssaksóknara í of mörgum málum?

Ég vil líka spyrja hv. þingmann, af því að hann tók það fram í ræðu sinni áðan að það væri svo mikilvægt að sjá til þess að ekki byggist upp sérþekking á þessu sviði á tveimur stöðum: Hvernig getur hv. þingmaður séð það fyrir sér að það verði ekki nauðsynlegt, með þessu fyrirkomulagi, að sérþekkingin verði að vera á tveimur stöðum? Núna er rannsóknin öll á einni hendi, stór og smá mál fara í gegnum skattrannsóknarstjóra ríkisins, en með þessu frumvarpi er þessu einhvern veginn hringlað til á mjög óskýran hátt. Og um leið og talað er um að skipta þessu einhvern veginn á milli héraðssaksóknara og Skattsins á samt ekki að byggja upp sérþekkingu á tveimur stöðum. (Forseti hringir.) Ég bið hv. þingmann að útskýra þetta í stuttu máli enda hefur hann ekki langan tíma.