151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[18:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Hvað varðar orðalagið í nefndarálitinu er það býsna skýrt og unnið í náinni samvinnu eins og hv. þingmaður kom inn á. Ég vil þakka hv. þingmanni mjög góða samvinnu og samtöl um akkúrat þetta mál. Ég held að við höfum öll komið að því þannig að við vildum binda sem fastasta hnúta utan um akkúrat þetta og ég tel okkur hafa gert það. Nefndarálit er lögskýringargagn og ég á erfitt með að sjá að hægt sé að vera mun skýrari í orðalagi en við erum hér. Við segjum einfaldlega: Ákvæði frumvarpsins eru skýrt afmörkuð að efni og taka einungis til lagningar raflína í flutningskerfi raforku. Eins og það sé ekki nóg, sem það er kannski ekki, það er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig, segjum við að ákvæðið nái ekki til annarra innviða eins og samgönguframkvæmda. Það er mat meiri hlutans að það skapi ekki fordæmi varðandi frekari takmörkun á skipulagsvaldi sveitarfélaga.

Ég verð að játa, forseti, að ég heyrði ekki þau orðaskipti sem hv. þingmaður vísar til og veit ekki hvort hæstv. ráðherra var þar bara að ræða um að horfa til þess hvernig þetta fyrirkomulag gæfi sig varðandi raflínulagningu, og bara að meta það, eða hvort hann var að vísa í eitthvað annað, ég hef sannast sagna ekki hugmynd um það. En hvað mín orð varðandi afstöðu ráðherrans varðar þá var ég sem framsögumaður málsins að sjálfsögðu í náinni samvinnu við ráðherrann og þá var upplýsingagjöf á báða bóga varðandi það hvernig um þetta var búið í nefndarálitinu og þar vorum við alveg samstiga.