151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[18:36]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég ætla ekki að gera því skóna að hann hafi ekki hlustað á ræðu mína en hún fólst í því að það væri akkúrat það áfall sem stór hluti landsmanna varð fyrir, rafmagnsleysið fyrir lok síðasta árs, sem er ástæða þessa máls og við fjölluðum vel og ítarlega um það.

Ástæða fyrirvara míns hér lýtur ekki að því að við séum að fara þessa leið til að tryggja rafmagnsöryggi heldur að sú áhætta sé fyrir hendi að við höfum ekki girt nægilega vel fyrir það að þetta sé fordæmisgefandi fyrir ýmis önnur mál sem koma upp og hafa verið ítrekuð hér, bæði af mér og framsögumanni. Þau koma ekki rafmagnsöryggi við heldur hinum ýmsu málum sem varða sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga og ég nefni þar aftur hálendisþjóðgarð, sameiningu sveitarfélaga, flugvelli, og vegaframkvæmdir eru eitt sem hefur verið nefnt o.s.frv. Þannig að: Nei, það er ekki þannig að við höfum ekki farið vel og ítarlega yfir þetta og það er sannarlega ekki þannig að við í umhverfis- og samgöngunefnd gerum okkur ekki grein fyrir mikilvægi þess að reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir að sú staða sem kom upp í kringum síðustu áramót komi upp aftur.