151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[18:40]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að frábiðja mér að hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson komi hingað upp og lesi eitthvað annað og verra í orð mín en þar stendur, alveg sama hvaða verkefni hann stendur frammi fyrir núna. Það er ekkert í málflutningi mínum þar sem ég geld varhuga við því að hér sé gengið lengra en við ætlumst til í lögskýringargagni okkar. Það er ekkert í málflutningi mínum sem verðskuldar einhverjar pólitískar pillur um að ég og félagar mínir í Viðreisn áttum okkur ekki á þjóðarhagsmunum. Það getur hins vegar vel verið að ég leggi annað í hugtakið þjóðarhagsmunir en hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Það er allt önnur og lengri saga og mér duga ekki tvær mínútur til að fara yfir það. En hafi hv. þingmaður áhuga á djúpri samræðu um það þá býð ég hann velkominn í það hvenær sem er. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta.