151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[19:28]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég legg þá til að hv. þingmaður ræði þessi mál varðandi svæðisbundna flutningskerfið í nefndinni. Ég tel fulla þörf á því að þau fái umræðu vegna þess að það sem var óvenjuslæmt í óveðrinu var að skemmdir urðu á byggðalínuhringnum, stóra kerfinu. En það sem gerðist líka var að Sauðárkrókslína, Dalvíkurlína, Húsavíkurlína, Laxárlína og Kópaskerslína duttu allar út vegna óveðurs og fóru margar mjög illa. Kannski var stærsta einstaka tjónið það að þetta kerfi og þessar línur urðu fyrir gríðarlegu tjóni í desemberveðrinu, sem við köllum oft aðventustorminn.

Síðan langaði mig rétt að spyrja hv. þingmann: Hver er þá afstaða hans til þjóðaröryggismála, til að tryggja helstu innviði landsins sem við höfum rætt hér? Ég kom inn á vegalögin áðan, þar sem tekið er tillit til umferðaröryggis, og Keflavíkurflugvöll og hlutverk hans í samgöngukerfi landsins. Hvernig eigum við að fara með þetta? Eigum við að líta til nágrannaþjóðanna eins og ég lýsti hér fyrr í kvöld? Norðurlöndin, Bretland, Þýskaland, Holland, nánast öll Evrópa er með þetta í stjórnsýslu sinni og samþykkt í lögum frá viðkomandi þingum. Hvar stendur þá hv. þingmaður og flokkur hans, Samfylkingin, til að tryggja þessa helstu öryggishagsmuni þjóðarinnar? Tökum þá kannski í leiðinni það sem bent hefur verið á, eins og umræðuna um Teigsskóg og töfina sem varð þar. Við höfum talað um Reykjavíkurflugvöll, sjúkraflugið, hlutverk hans sem varaflugvallar. Hvernig eigum við að tryggja helstu öryggishagsmuni þjóðar þannig að einstök sveitarfélög fari ekki hart gegn þeim? Gæti hv. þingmaður útskýrt afstöðu sína og flokks síns gagnvart því máli?