151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[13:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta mál er klassískt dæmi um þau geðþóttastjórnmál sem við búum við. Ráðherra tekur bara ákvörðun um að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Svo er hlaupið upp til handa og fóta að reyna að finna hvað eigi þá að gera í staðinn. Þetta frumvarp er niðurstaðan af því, eftiráréttlætingar á ákvörðun ráðherra. Þetta frumvarp er einfaldlega ekki nógu gott og svarar ekki því hvað sé að fara að gerast í aðstöðu fyrir frumstig nýsköpunar sem Nýsköpunarmiðstöð sinnti áður. Það þurfti tvímælalaust að laga ýmislegt á Nýsköpunarmiðstöð, það vissu allir. En þessi ákvörðun kom öllum í opna skjöldu. Þessi niðurstaða er ekki nógu góð og það á bara að troða frumvarpinu í gegnum þingið af því að það verður einhvern veginn að redda slæmri ákvörðun ráðherra. Þetta eru mjög klassísk vinnubrögð sem við verðum að hafna.