151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[17:00]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nýverið fór formaður Sjálfstæðisflokksins í viðtal og kenndi launahækkunum almennings um verðbólguna sem er sú þriðja mesta í Evrópu. Það var mjög hentug og sérkennileg yfirlýsing, sérstaklega þegar maður skoðar orsakavald verðbólgunnar á Íslandi í dag, sem er hvað? Já, gengisfall krónunnar. Krónan er sökudólgurinn. Þegar íslenska krónan fellur um 15% á síðasta ári gagnvart evru smitast það strax yfir í verðbólgu. Það verður svokallaður gengisleki. Þetta hefur bein áhrif hvað það varðar. Orsakavaldur verðbólgu á Íslandi er krónan, það eru ekki launahækkanir til almennings. Við sjáum að það eru yfir 200 fyrirtæki á Íslandi sem gera upp í öðrum gjaldmiðli og evran er langvinsælasti gjaldmiðillinn. Kjósendur eiga að spyrja sig þessarar spurningar: Af hverju eru fjármagnseigendur, milljarðamæringar okkar, og stórútgerðin tilbúnir að verja krónuna svo hatrammlega þegar þessir hópar annaðhvort gera upp í erlendum gjaldmiðli eða stunda umfangsmiklar gengisvarnir sem eru ekki á færi almennings? Ástæðan er augljós, herra forseti. Þessir aðilar hagnast á krónunni. Ef maður á pening, eins og fjármagnseigendur eiga nóg af, eru háir vextir góðir. Vextir eru ekkert annað en verð á peningum. Þá er verðtrygging einnig góð því að hún verndar fjármagnið fyrir verðbólgu. Þess vegna er meira að segja verðbólgan ekki slæm fyrir auðmenn. Þegar kemur að útgerðinni fær hún reglulega hjálp í gegnum gengisfellinguna. Gengisfelling þýðir meiri gjaldeyri til útgerðarinnar fyrir fiskinn. Þetta er massaflutningur verðmæta frá innlendum fyrirtækjum og almenningi til útflutningsgreinarinnar. Þetta snýst allt um peninga, herra forseti, og hagsmunagæsla Sjálfstæðisflokksins er svo grímulaus hvað það varðar. Þess vegna brýni ég Sjálfstæðisflokkinn, þennan gamla flokk skulum við kalla hann, til góðra verka og til að fylkja sér á bak við hina almennu hagsmuni íslensks atvinnulífs. Íslensk fyrirtæki þurfa stöðugleika, þau þurfa sama gjaldmiðill og keppinautar þeirra úti í Evrópu. Þannig styrkjum við og eflum samkeppnishæfi íslensks atvinnulífs.