151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[17:35]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Það er ágætt að fá þessi mál til umræðu hér. Þetta er náttúrlega klassískt. Sú mikla áhersla sem flokkur hv. framsögumanns leggur á þetta mál fær mann stundum til að halda að þetta sé nánast eina málið sem hann hefur upp á að bjóða.

Herra forseti. Sérhvert ríki kýs að gæta hagsmuna sinna þegar kemur að myntinni, að gjaldeyrismálunum. Þar er um stórfellda hagsmuni að ræða fyrir atvinnulíf, fyrir heimili og fyrir allan almenning. Það að taka upp mynt annarrar þjóðar eða bandalagsþjóða eins og hér er rætt um felur eðli málsins samkvæmt í sér umtalsvert fullveldisafsal. Seðlabanki Evrópu í Frankfurt stýrir evrunni, að svo miklu leyti sem markaðurinn gerir það ekki, og hann gerir það að mestu leyti í ljósi þýskra og franskra hagsmuna. Það er útilokað með öllu að íslenskir hagsmunir kæmu til álita við ákvarðanir þeirrar stofnunar sem Seðlabanki Evrópu er þegar kemur að því að taka ákvarðanir um málefni evrunnar. Eftir hverju er þá að slægjast fyrir okkur að myntin sem við búum við hér ráðist af þýsk-frönskum hagsmunum? Sú spurning er mjög áleitin, herra forseti.

Evran veldur Miðjarðarhafslöndum Evrópusambandsins umtalsverðum erfiðleikum eins og kunnugt er. Harkan sem Evrópusambandið sýndi Bretum við útgöngu þeirra úr Evrópusambandinu, Brexit, er e.t.v. skiljanleg í ljósi þess að nauðsynlegt hafi verið talið að kenna þeim ríkjum, Miðjarðarhafsríkjunum, þá lexíu að þeim væri hollast að láta ekki hvarfla að sér að hverfa úr sambandinu, hversu erfitt sem þeim reyndist að búa við evruna.

Vegna umræðu um norska krónu er rétt að minnast þess að hún er olíumynt og mjög viðkvæm fyrir sveiflum í heimsmarkaðsverði á olíu. Við getum ekki með nokkrum hætti haft hag af því að tengjast slíkri mynt sem ræðst af verðsveiflum á alþjóðlegum olíumarkaði. Við erum, og þekkjum það mjög vel, í viðkvæmri stöðu gagnvart ytri áföllum sem hafa skollið á okkar þjóðarbúskap. Við þekkjum hver þau áföll geta verið, það getur verið verðfall á okkar afurðum, það getur þurft að draga saman í fiskveiðum, svo ég nefni bara alkunn dæmi um slík áföll. Þannig að spurningin er einungis hvar þessi áföll koma niður og kannski að einhverju leyti með hvaða hætti hægt er að milda þau eftir því sem kostur er. Við þekkjum það vel af reynslunni að slík ytri áföll hafa í reynd leitt af sér veikingu á gengi krónunnar og byrðunum hefur þannig verið dreift. Svo má ræða það hversu sanngjörn eða réttlát slík dreifing er, en þannig þekkjum við þetta. Ef krónan væri föst við evruna eða þess vegna aðra mynt yrðu afleiðingar af slíkum áföllum að koma fram með öðrum hætti. Þá er ekki nema tveimur kostum að meginstefnu til, vil ég segja, til að dreifa. Það yrði annars vegar að koma fram í fjárhagsbúskap ríkissjóðs með samdrætti í útgjöldum og skuldasöfnun, að svo miklu leyti sem hægt er að koma við frekara aðhaldi í ríkisbúskapnum, en hinn kosturinn er vinnumarkaðurinn. Og þá er ekki nema um tvennt að ræða; annars vegar umtalsverða kjararýrnun en að öðrum kosti umtalsvert atvinnuleysi.

Þeir sem koma hér og tala fyrir því að við eigum í okkar þjóðarbúskap að eiga það undir þýskum hagsmunum, fyrst og fremst, og frönskum hvernig við stýrum okkar efnahagsmálum og hvernig við bregðumst við áföllum, sem því miður eru á stundum óumflýjanleg, verða að skýra það hvernig þeir sjá fyrir sér að brugðist yrði við áföllum af því tagi sem ég hef hér gert að umræðu. Þeir verða að skýra það í hverju okkar hagsmunir í raun og veru felast. Það er ítrekað talað um í þeim tveimur málum sem liggja hér frammi annars vegar um tengingu gjaldeyrisins við evruna og hins vegar að taka upp viðræður við Evrópusambandið um aðild Íslands að því. Þeir verða þá að skýra það hvaða raunverulegu stöðu við hefðum í slíku samstarfi. Það er þetta orðasamband að eiga sæti við borðið. Það hljómar auðvitað mjög vel og allt það. En hver yrðu hin raunverulegu áhrif sem við hefðum og að hve miklu leyti yrði tekið tillit til okkar hagsmuna?