151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[15:14]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau orð hæstv. heilbrigðisráðherra að það hafi verið gæfa okkar í þessu máli að fylgja ráðum vísindamanna og faglegri ráðgjöf þeirra, sömuleiðis um mikilvægi samstöðunnar og hana á að verja með öllum tiltækum ráðum, finnst mér. Hún er forsenda árangursins.

Ég skil markmiðið núna sem svo að hér sé verið að teikna upp aðgerðir til að bregðast við leka á landamærum og að frumvarpið sé tvíþætt, annars vegar skylda til dvalar í sóttvarnahúsi og hins vegar að útlendingum frá þessum sömu svæðum sé í ákveðnum tilvikum óheimilt að koma til landsins.

Ég er aðeins að velta fyrir mér samstöðu innan stjórnarinnar, því að svo fylgja reglugerðir. Þegar ég les reglugerð hæstv. dómsmálaráðherra finnst mér aðeins annað tungutak þar en hérna. Ég velti því upp hvort sú reglugerð styðji við það markmið sem hér er verið að lýsa, því að hér er upptalning, held ég, í einhverjum tíu liðum á öllum þeim tilvikum þar sem þetta bann á ekki við. Það á ekki við um útlendinga sem hafa fasta búsetu hér á landi, (Forseti hringir.) á ekki við um útlendinga í nánu parasambandi, (Forseti hringir.) á ekki við um starfsfólk í flutningum á vöru og þjónustu, á ekki við um farþega í tengiflugi o.s.frv.