151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[15:15]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að það sé alger samstaða um málið milli þeirra ráðuneyta sem standa að því. Og þó að ég mæli fyrir þessu, þar sem þetta er nú bandormur þótt stuttur sé, þá erum við algjörlega arm í arm með okkar markmið í þessu máli. Við töldum rétt að heimild yrði opnuð fyrir dómsmálaráðherra til að setja reglugerð sem hér hefur verið fjallað um. En rétt eins og sú reglugerð sem heilbrigðisráðherra getur sett yrði sú heimild ekki virkjuð öðruvísi en með minnisblaði frá sóttvarnalækni, sem er auðvitað óvenjulegt í þessu tilviki. En þannig er það að sóttvarnalæknir verður að virkja heimildina með minnisblaði til dómsmálaráðherra, mögulega með einhverri millilendingu hjá heilbrigðisráðherra.