151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[15:18]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að koma með þetta frumvarp þó að ég hefði viljað hafa það örlítið öðruvísi, enda á Flokkur fólksins eftir að kynna breytingartillögu við það. Það voru svo margar mótsagnir í framsögu hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég veit eiginlega ekki alveg hvar ég á að byrja. Það er t.d. talað um að verið sé að reyna að koma í veg fyrir að fólk sé hindrað í sínu daglega lífi. Samt erum við búin að vera meira og minna hlekkjuð hér inni og hindruð í okkar daglega lífi frá því fyrir rúmu ári síðan.

Mig langar til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra að því hvort það sé verjandi, fyrst við höfum verið svona viljug til verksins og fylgt eftir öllu því sem okkur er sagt — hæstv. ráðherra nefnir líka reynsluna af Covid og annað slíkt — að réttlæta það að við skulum sennilega vera að fá núna fjórðu bylgjuna í fangið. Telur hæstv. heilbrigðisráðherra, þegar hún nefnir það sjálf að hvert einasta smit sem hefur greinst innan lands megi rekja til leka á landamærunum þar sem veiran hefur komið inn, hvert einasta smit, að við hefðum þurft að ganga í gegnum svona margar bylgjur faraldursins? (Forseti hringir.) Telur hæstv. heilbrigðisráðherra að við hefðum ekki getað komið í veg fyrir það og þá um leið verið frjáls hér innan lands eins og Nýsjálendingar, Ástralir, Taívanar og fleiri þjóðir?