151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[15:50]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég veit eiginlega ekki hvað maður á að segja. Maður er einfaldlega bara hálfdapur. Ég hélt kannski að við værum búin að fá nóg. Þegar talað er um að hér sé um pólitískan hráskinnaleik að ræða, eða hvaðeina annað, þegar talað er um að það sé alveg frábært að við höfum leyft sóttvarnayfirvöldum og sérfræðingum að vísa okkur leið þá er það ekkert annað en pólitík. Það vita allir, bæði þeir sem segja annað og hinir sem segja ekki neitt. Þetta snýst um pólitík og aftur pólitík og sérhagsmunagæslu. Ég segi nei við því að þetta snúist í fyrsta lagi um að vernda líf og heilsu landsmanna. Það hefur sýnt sig í þremur undangengnum bylgjum faraldursins, það hefur sýnt sig í því hvað við erum að taka í fangið akkúrat núna.

Mig langar að spyrja, fyrst talað er um nýgengi smita upp á 1.000 á hverja 100.000 íbúa: Gerið þið ykkur grein fyrir hvers lags gríðarlegur fjöldi það þarf að vera til að við getum beitt þeim reglum sem við erum vonandi að fara að samþykkja hér í dag? Ég ætla sannarlega ekki að draga fjöður yfir það að það væri jákvætt ef smitstuðullinn væri ekki svona gjörsamlega „sky high“ — fyrirgefðu, forseti, ég veit að þingmálið er íslenska — sem sagt algerlega skýjum ofar. Við skulum gera okkur grein fyrir því að þegar við vorum hvað eldrauðust og vorum að berjast á okkar vígstöðvum af fremsta megni þá voru flest smit á Íslandi á einum degi ríflega 100. Gerið þið ykkur grein fyrir því hvað það þýðir í nýgengi smita á 14 dögum? Um 300. Það er ríflega þrisvar sinnum minna en þetta frumvarp gerir ráð fyrir. Það eru um 300 smit, virðulegi forseti. Sóttvarnastofnun Evrópu talar um 500. Þegar nýgengi smita er um 500 á hverja 100.000 íbúa, og þá er miðað við 14 daga, blikka þar öll rauð ljós. Nei, við þurfum að koma með sérreglu, ekki bara um að nýgengi smita þurfi að vera 1.000. Reglan segir: Nú ferð þú í sóttkvíarhús. Það eru þá 750 miðað við að hægt er að sækja um undanþágu.

Flokkur fólksins segir líka: Það er ekki rétt að tala um að við höfum ekki verið hneppt í hálfgerða fjötra. Ég hef lifað við það að búa með fólki sem var í stórkostlegri áhættu áður en til bólusetningar kom. Ég þurfti að búa við að geta ekki sinnt starfinu mínu hér og mætt í þingsalinn, einfaldlega af því að ég vildi ekki hafa það á samviskunni að sýkjast af Covid-19 og bera það heim til mín. Við vitum öll hvers Covid-19 er megnugt. Það hefur ekki farið fram hjá neinum. Þess vegna finnst mér með hreinum ólíkindum þegar talað er um það núna á lokametrunum að það sé bjartara fram undan. Það virðist bara eiga að vera bjartara fram undan á Íslandi. Við eigum svo langt í land með að geta sagt að við séum að bólusetja alla heimsbyggðina að það er eiginlega ekki einu sinni broslegt. Það er svo langt í land. Miðað við að við skulum vera að hamast við að auglýsa landið út á við til að sanka að okkur ferðamönnum, miðað við að 40 erlend flugfélög skuli vera í startholunum til að sækja landið okkar heim, miðað við allt þetta, er það með hreinum ólíkindum hvernig þetta er matreitt ofan í okkur hér. Með hreinum ólíkindum.

Virðulegi forseti. Flokkur fólksins er með breytingartillögu við frumvarpið. Við viljum sóttkví undantekningalaust fyrir alla þá sem telja sig eiga erindi um landamærin á þeim tíma sem við erum að verja okkur hér innan lands, á þeim tíma sem við erum að ná því hjarðónæmi sem við köllum eftir. Það er margbúið að koma fram hvaðan smitin koma inn í landið. Það er margbúið að sanna það og sýna. Auðvitað dettur kórónuveiran ekki bara ofan úr skýjunum eða kemur með regnvatninu og ég hef ekki heldur heyrt að hún komi með farfuglunum. En hún kemur í gegnum landamærin, í gegnum leku landamærin.

Þetta er stórmerkilegt. Talandi um það að það er ekki einu sinni tekið tillit til þess hve mikið af fölsuðum vottorðum er hægt að kaupa, PCR-prófum og bólusetningarvottorðum í gegnum ákveðnar síður á netinu og borga fyrir það nokkra aura. Það er ekki einu sinni tekið tillit til þess heldur er talað um hvað við erum jú öflug, við skimum farþega þótt þeir séu bólusettir. Ein skimun. Hvenær gerum við það? Var það við komuna eða var það eftir fimm daga? Ég held að það sé nefnilega við komuna. Það sem við höfum séð og höfum lært af Covid og öllum þessum skimunum er að við sjáum helling af smitum í seinni skimun, helling af þeim í nákvæmlega seinni skimun. Og hvað er verið að gera til að koma í veg fyrir slíkt? Á ég að segja ykkur það? Ekki neitt. Ekkert. Það á að skima fyrstu skimun. Hvers vegna er verið að skima við komuna? Af hverju er þá ekki skimað eftir fimm daga þannig að í rauninni sé eins og um seinni skimun sé að ræða?

Reynslan hefur sýnt okkur að þetta er algerlega óútreiknanlegur faraldur. Við getum ekki stólað á eitt né neitt, að veiran hagi sér á einn eða annan hátt. Jafnvel er talað um það núna að með auknum bólusetningum komum við líka í veg fyrir það að elstu hóparnir okkar og áhættuhóparnir lendi á spítala. Staðreyndin er sú að við erum að glíma við allt aðra veirusort heldur en var í fyrra, allt aðra. Nú er breska afbrigðið komið. Nú erum við að sjá í leikskólum hvernig hún leggst á börn. Þau eru líka að sýkjast núna. Það er ólíkt fyrra afbrigðinu sem við vorum að glíma við, allt öðruvísi en þá. Þannig að ég segi: Ef raunverulegur vilji væri til að opna hér innan lands þyrftum við ekki nema tvær, þrjár vikur og þá værum við komin út í sumarið, sólina og vorið. Ef það væri raunverulegur vilji væri hver einasti einstaklingur sem kæmi um landamærin settur í sóttkví. Við erum að horfa í kringum okkur á samfélög þar sem hefur gengið með ólíkindum vel heima hjá þeim sjálfum að takast á við þennan faraldur.

Öðruvísi mér áður brá en við höfum lært ýmislegt á þessari vegferð og það hafa sóttvarnayfirvöld og okkar ágæti sóttvarnalæknir gert líka. Ég man að þegar við vorum að byrja að glíma við veiruna var í fyrsta lagi talið hjá fjármálaráðuneyti og þeim sem voru að glíma við efnahagsafleiðingarnar að þetta væri bara smáskafl sem við værum að keyra í gegnum. Við þyrftum bara að standa saman og þetta yrði búið eftir sirka þrjá mánuði. Eru 12 eða 13 mánuðir síðan þessi söngur var sunginn? Það var eins og enginn lifði í raunheimi. Það var eins og enginn áttaði sig á að við værum að fara að takast á við heimsfaraldur. Í staðinn fyrir að fá að njóta þess og nýta það að við værum sérstök, að við værum lítil eyja norður í ballarhafi og gætum varið okkur sjálf og gerðum okkur grein fyrir því hvaðan veiruna bar að garði, í stað þess að gera það fengum við þrjár bylgjur í fangið og sú fjórða er á leiðinni núna.

Mér finnst það óverjandi. Mér finnst það óverjandi vinnubrögð. Hvort sem talað er um stórkarlalegt orðafar eða hvaðeina annað er það sannfæring mín. Svona hef ég talað síðan ég hóf þessa umræðu í janúar 2020. Ég hef aldrei hnikað frá því. Ég og Flokkur fólksins höfum verið að róa ein á þeim báti þangað til núna allt í einu eru komnir til lánsins þingmenn úr stjórnarandstöðu sem taka um árarnar með okkur. Fram að þeim tíma og þar til bara nýlega vildi helst enginn tjá sig um Covid-19 og hvernig ætti að bregðast við. Allir sögðu: Æ, æ, við erum svo góð. Við látum sóttvarnayfirvöld ráða. Nei, við kjörnu fulltrúarnir ætlum ekki að taka ábyrgð. Við höfum ekki vit á þessu. En ábyrgðin er okkar. Það er algerlega á hreinu. Það er hæstv. heilbrigðisráðherra sem fer fyrir þessari skútu frá A til Ö. Það er ekki flóknara en það.

Ég get ekki séð neinn raunverulegan vilja til að verja okkur hér innan lands, líf okkar og heilsu, á meðan við stöðvum ekki veiruna skilyrðislaust á landamærunum. Okkur er það í lófa lagið. Við getum það ef við viljum. En viljinn er ekki fyrir hendi, svo að það sé sagt. Öll sýndarmennska um eitthvað annað, öll leikrit um eitthvað annað eru sýndarleikrit því að það er akkúrat ekkert að marka þetta. Það er nánast ómögulegt að vera með annað eins nýgengi og tekið er fram í frumvarpi hæstv. heilbrigðisráðherra: 750 og þá geturðu sótt um undanþágu. Eitt þúsund! Er þetta eitthvert grín?

Ég man ekki hvað, það var nú búið að reikna það fyrir mig, en ég held að um 30.000 manns hafi verið að greinast á dag í Frakklandi. 16,5 milljóna manna þjóð, 30.000 á dag. Miðað við frumvarpið þyrftu ríflega 60.000 að greinast þar á dag til að geta fallið undir þennan 1.000 smita nýgengisstuðul. Samt sem áður höfum við heyrt að fjórar þjóðir sem flagga rauðu verði að fara í sóttkví við komuna hingað; Frakkland, Ungverjaland, Holland og Pólland.

Ég óska eftir því, virðulegi forseti, að við fáum þessar tölur á blaði. Ómögulegt virðist vera að fá þessi svör. Maður er að rembast við það. Reyndar fékk ég góða þjónustu hjá upplýsingaþjónustu þingsins. Þeir aðstoða okkur alltaf ef við erum í vanda og vitum ekki alveg hvernig við eigum að nálgast vissuna um það sem við viljum koma á framfæri. Ég þakka upplýsingaþjónustu þingsins hjartanlega fyrir góða þjónustu. Við þingmenn getum alltaf leitað til þeirra og fengið svör við þeim spurningum sem okkur liggur á hjarta. Það er alveg með ólíkindum hvað þau eru meira að segja snögg að því.

Breytingartillaga Flokks fólksins felur í sér að allir skuli undantekningarlaust í sóttvarnahús, ekki bara í fimm daga heldur sjö. Og af hverju sjö daga en ekki fimm? Af hverju þykist Flokkur fólksins vita betur en sóttvarnayfirvöld? Við, ólíkt stjórnvöldum sem endalaust tala um að þau líti til landanna í kringum okkur, sjáum hvað Norðmenn eru að gera. Þeir eru með tíu daga. Þeir eru búnir að flagga rauðu á Íslendinga. Við förum í tíu daga sóttkví ef við heimsækjum Noreg. Hvað gera hinar þjóðirnar sem hefur gengið hvað best í faraldrinum, Nýsjálendingar, Ástralir og fleiri? Ástralir eru með tvær vikur í sóttkví án undantekninga. Þar greiða einstaklingarnir í rauninni fyrir sig sjálfir. Flokkur fólksins gerir þá breytingartillögu við frumvarp Samfylkingar og alveg eins við þetta frumvarp að sóttkvíin verði greidd af farþeganum sjálfum. Undantekningin er ef félagslegar eða fjárhagslegar aðstæður sýna fram á að hann geti það ekki og sé ekki bær til þess. Markmiðið er einfaldlega að reyna að draga úr flæði og ónauðsynlegri umferð um landamæri. Það er akkúrat það sem við þurfum að gera á meðan við erum að ná hjarðónæmi innan lands, á meðan við eigum að geta brosað framan í sumarið og þjóðina og sagt: Sjáið tindinn, þarna fórum við og við sigruðum að lokum. En það er óverjandi ef það á að kosta okkur fjórðu bylgjuna og við eigum eina ferðina enn, á meðan við bíðum eftir frelsinu, að vera heft í samkomutakmarkanir og fleiri bönn.

Staðreyndin er sú að heilu og hálfu stéttirnar, starfsstéttirnar innan lands, hafa verið settar á hliðina burt séð frá öllum hjálparaðgerðum. Sviðslistamenn, tónlistarmenn, allt frá þeim tekið. Það er alveg með hreinum ólíkindum. Hvernig var aftur með páskana? Hvernig var með skíðin? Hvernig var með afkomu allra þeirra? Nei, þið skuluð bara sitja heima af því að þið eruð ekki í neinum fjötrum og það eru engin samkomubönn eða eitt né neitt. Hvers lags mótsögn er það, virðulegi forseti, að ætla að halda því fram og lítilsvirða fólkið okkar sem hefur setið heima og varla litið út úr húsi með því að halda því fram að ekki hafi verið fjötrar á stórum hluta þjóðarinnar til að reyna að vernda hana og koma í veg fyrir að þessi faraldur gangi yfir hana, að hún fengi þessa veiru?

Ég segi það enn, virðulegi forseti, að Flokkur fólksins hefur aldrei dregið af sér við að segja skoðun sína hvað varðar þetta mál. Við höfum allan tímann viljað fylgja Nýsjálendingum og læra af þeim þjóðum sem hafa náð hvað bestum árangri. Þrátt fyrir að komið hafi fram að aðrar þjóðir líti jafnvel til okkar fyrir það hvað okkur hefur gengið frábærlega vel og hvað við höfum verið ofsalega dugleg þá get ég líka sagt að ég hef nú heyrt alveg jafn mikinn hlátur yfir því að við skyldum ekki hafa nýtt okkur það að vera 370.000 manna þjóð hér norður í ballarhafi. Og það hefði verið enginn vandi að koma í veg fyrir að við hefðum þurft að ganga í gegnum þær hörmungar af völdum veirunnar sem við höfum raunverulega gert. Ef viljinn hefði alltaf verið að setja líf okkar og heilsu í fyrsta sæti væri staðan svolítið mikið önnur. Ef viljinn hefði alltaf verið sá og hefði það ekki verið efnahagurinn, 10% hagkerfisins og sérhagsmunagæslan sem réð ríkjum þá hefði staðan verið önnur.