151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[16:20]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða breytingu á sóttvarnalögum og lögum um útlendinga. Hér er verið að bregðast við því ákalli og þeim aðstæðum sem upp komu, að segja má óvænt. Við vorum komin á gott ról, en markmið þessa frumvarps er að skjóta lagastoð undir frekari sóttvarnaaðgerðir á landamærum. Lagt er til í því augnamiði að færa stjórnvöldum skilvirkari heimildir í baráttu við Covid-veiruna.

Ég kem hér upp til að fagna þessu frumvarpi. Ég hef verið þeirrar skoðunar að við hefðum þurft að setja skýrari lagasetningu undir þær aðgerðir sem við þurfum að grípa til, og eins að koma á móts við þær óskir sem sóttvarnalæknir hefur komið fram með. Vissulega hefur liðið nokkur tími frá því að dómur féll og þar til frumvarpið var lagt fram, en aðstæður hafa líka breyst hratt. Ég hef verið þeirrar skoðunar að við hefðum þurft að hafa þessa lagastoð vegna þess að við getum kannski ekki verið á undan veirunni en við þurfum að vera samhliða henni til að geta brugðist við.

Þetta frumvarp fór í gegnum þingflokk Framsóknarflokksins án athugasemda og erum við mjög sátt við þessa framkvæmd stjórnvalda. En auðvitað er ljóst að veiran er ekki mjög pólitísk og við höfum öll okkar ákveðnu skoðanir á þessu. Spurningar vakna og ég ætlaði að fara í andsvar við hæstv. ráðherra en náði því ekki. En ég hafði nokkrar spurningar sem ég get svo sem sett út í loftið þó að ég fái ekki svör við þeim hér. Þetta eru ekki mínir fyrirvarar heldur aðeins spekúleringar um hvernig þetta gangi.

Vissulega verðum við líka að taka mið af þeirri stöðu sem við erum í í dag. Hún er allt önnur en hún var fyrir ári síðan. Fyrir ári síðan datt okkur ekki einu sinni í hug að komið yrði bóluefni á þessum tímapunkti núna, hvað þá að við værum komin svona langt. Það var fjarlægur draumur. Talað var um nokkur ár og við höfðum líka nokkur ár þegar við vorum að fást við faraldra hér fyrir nokkrum árum. Í dag er staðreyndin sú að um 31.000 manns eru fullbólusettir hér á landi og þeir sem fengið hafa a.m.k. einn skammt eru tæplega 77.000 talsins — 77.000 Íslendingar. Þetta er staðreynd sem við gátum ekki látið okkur dreyma um fyrir ári síðan. Og enn heldur þetta áfram og talað er um að við getum verið orðin fullbólusett 1. júlí þegar þessi bráðabirgðalög falla úr gildi.

En ég get alveg tekið undir að kannski sé rétt að taka þetta upp og hafa þetta til lengri tíma svo hægt verði að bregðast við óvæntum aðstæðum síðar. Ég er ekki endilega að tala um Covid. Við getum tekið allan þann lærdóm sem við höfum dregið af því að ganga í gegnum faraldurinn og nú er hópur að störfum sem er að endurskoða sóttvarnalög í heild sinni. Þetta ár og þessi tími sem við höfum gengið núna í gegnum saman, öll sú reynsla verður höfð með í þeirri vinnu og endurskoðun. Vonandi sjáum við fyrir endann á þessari veiru jafnvel á þessu ári eða alla vega þeim sóttvörnum sem við þurfum að beita gagnvart henni vegna þess að við verðum öll bólusett. Og síðan á bóluefni líka eftir að þróast og verða betra.

Mig langar aðeins að nefna hérna hvort við teljum að nóg sé að gert. Er þetta nægilegt? Hefði ekki verið betra að setja skýrari eða strangari lög þó að reglugerðin hafi verið mildari miðað við þær aðstæður sem uppi eru í dag? Reglugerðirnar taka mið af akkúrat þeirri stöðu sem er í dag. Kannski hefði verið hægt að setja einhverjar lagaheimildir hér inn sem hægt væri að bregðast við, kannski um miðjan maí. Ég ætla ekki að vera svo svartsýn að halda að við þurfum þess, en það er spurning hvað væri hægt. Alla vega þurfum við alltaf að geta brugðist eins hratt við og veiran, því að hún er alltaf að koma aftan að okkur.

Nú er fólk einungis skyldað í sóttkví sem kemur frá löndum sem hafa 14 daga nýgengi smita yfir 750 á hverja 100.000 íbúa. Samkvæmt viðmiðum eru það um 15 lönd núna og er hægt að sækja um undanþágu fyrir fólk sem kemur frá svæðum sem eru með nýgengi smita á bilinu 750 til 1.000. En þá er það spurning: Hvernig ætlum við að auka eftirlit með þeim sem fá þessa undanþágu og fara í heimasóttkví? Hvernig ætlum við að fylgjast með þeim? Erum við búin að undirbúa það nægilega vel?

Síðan er spurning um hver viðurlög við brotum á sóttvarnalögum eru. Er búist við því að stjórnvöld geti hert þau viðurlög? Hver verða þau þá? Síðan er líka þessi reglugerð um bann við ónauðsynlegum ferðalögum, sem búið er að fara hérna yfir af nokkrum hv. þingmönnum. Talað er um að ferðamenn sem koma til landsins verði að sækja um undanþágu innan tveggja sólarhringa frá því að þeir koma til landsins. Ef það verður ásókn, af því að við vitum að það er getur orðið vinsælt að koma til landsins, bæði vegna þess að við erum með tiltölulega fá smit og eins t.d. til að sjá eldgosið, það gæti haft aðdráttarafl, hvernig högum við málum þá? Hvernig er þessi reglugerð í framkvæmd? Tryggjum við þá dómsniðurstöðuna með þessari reglugerð og er meðalhófs gætt?

Þetta eru allt spurningar sem eðlilegt er að velta upp þó að ég fagni virkilega þeim lögum sem við erum að setja núna og kallað hefur verið eftir af okkur, því að okkur brá virkilega þegar þessi nýju smit komu upp. En allt kostar þetta yfirlegu og þegar við erum að setja breytingalög sem taka kannski gildi í dag er ekkert óeðlilegt við að það séu einhverjir hnökrar á framkvæmdinni. Við þurfum að vera snögg að bregðast við því.

En ég kom aðallega upp til þess að fagna þessu máli og vona að það nái fram að ganga því að við sjáum fram á að við verðum fullbólusett, eins og áætlun stendur til, fyrir 1. júlí. Það er ekkert óeðlilegt að við séum ekki algerlega að loka landamærunum vegna þess að ýmis lönd í kringum okkur eru líka á fullu við að bólusetja. Og síðan er veiran á mismunandi stað, sem og nýgengi smita. Það eru t.d. engin smit á Grænlandi. Ætlum við að meina Grænlendingum að koma hingað til landsins, eins og tillögur frá Flokki fólksins segja? Við þurfum að gæta meðalhófs og vera bjartsýn á að þetta verði í lagi í sumar, að við getum tekið á móti fólki, sem við viljum svo sannarlega gera eins og venjulega.