151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[16:29]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér breytingu á sóttvarnalögum og lögum um útlendinga eins og margítrekað hefur komið fram. Mig langar að byrja á því að fara aðeins til baka í tíma, þó ekki langt. Þann 5. apríl sl. komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að reglugerð sem sett var þá skorti lagastoð. Þá var velferðarnefnd aldrei með það í huga að ræða slíkt fyrirkomulag og það kom alla vega mér á óvart að reglugerðin var sett, eins og flestir vita, með þessa heimild. Ekki vegna þess að heimildin var sett inn heldur miklu frekar að sá möguleiki var aldrei ræddur innan nefndarinnar. Umræðan og viðbrögðin og afleiðingarnar sem svo fylgdu leiddu til þess að nú stöndum við með þetta mál í höndunum sem þarf að leysa með hraði. Við þingmenn Miðflokksins styðjum þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar en ég vil þó leyfa mér að benda á að það er fullmikill asi á vinnubrögðum. Við heyrum í fjölmiðlum að annaðhvort sé um enga breytingu að ræða eða þá að ekki sé nægjanlega langt gengið.

Til að byrja einhvers staðar er ágætt að nú sé komin fram, að því er virðist, nokkuð skýr lagastoð fyrir fyrirhuguðum aðgerðum. Við erum alveg að ná í mark og það er mikilvægt að þjóðin standi saman að því sem þarf til að ná markmiðinu. En það vakna vissulega spurningar. Erum við núna ekki lengur að fletja kúrfuna? Erum við núna að stefna að veirufríu Íslandi? Við þessu þarf að fá svör. Og hvað breyttist? Okkur vantar einnig svör við því af hverju ekki var upplýst um þau 118 mál sem hafa komið til kasta lögreglunnar vegna brota á sóttkví frá því að faraldurinn braust út og þar af eru 24 mál á þessu ári. Ég vil leggja sérstaka áherslu á þau 24 mál. Leiddu þau öll til smita? Þetta er t.d. spurning sem vantar að fá svar við. Sagt er að öll málin sem hafa komið upp á árinu 2021 tengist landamærum og þá vaknar spurningin: Hvernig? Eru þetta erlendir ferðamenn eða heimkomnir landsmenn?

Með frumvarpinu er dómsmálaráðherra veitt heimild til að setja reglugerð og ég ætla að vitna hér aðeins í það sem segir um þá reglugerð, með leyfi forseta:

„… sem bannar útlendingum sem dvalið hafa á slíkum svæðum að koma til landsins. Heimilt verður að gera undanþágur vegna búsetu hér á landi og vegna brýnna erindagjörða. Með beitingu þessa úrræðis er því ekki aðeins unnt að minnka líkur á smiti innan lands heldur jafnframt draga úr álagi á landamærum og í sóttvarnahúsum.“

Það þarf að upplýsast sem fyrst ef á að flýta málinu í gegn hvaða undanþágur liggi að baki, hvað þurfi til að fá undanþágu. Eins er það með ónauðsynleg ferðalög. Hvað felst í því? Eru það ferðir embættismanna eða hælisleitenda eða hvaða meining liggur í þeim orðum? Ég vil þó leyfa mér að hrósa ríkisstjórninni fyrir ákvörðun sína um hááhættusvæði. Ég held að þetta sé í fyrsta sinn í faraldrinum sem ríkisstjórnin tekur ákvörðun ein og óstudd án aðkomu Evrópusambandsins.

Við ræðum hér tvö ákvæði, annars vegar til breytingar á sóttvarnalögum og hins vegar til breytingar á lögum um útlendinga. Gott er að hafa í huga að þetta er aðeins til bráðabirgða eða til afmarkaðs tíma og auðvitað vakna spurningar: Er minnisblað frá sóttvarnalækni komið eða bíðum við eftir því? Er sóttvarnaráð með í ráðum eða er aðeins einn maður sem leggur til minnisblað í þetta sinn, eins og alltaf áður?

Mig langar aðeins að víkja að sóttkvíarhótelunum því að ég hef undrað mig á því af hverju við nýtum ekki hótelin sem eru í nálægð við Keflavíkurflugvöll. Þau eru bæði nær og líka minni þannig að hægt er að bjóða upp á góðan aðbúnað. Auk þess mælist atvinnuleysi hátt á svæðinu sem um ræðir og allt sem mælir með því að nýta hótelin þar.

Annar hlutur er viðurlög við brotum. Er ætlunin að auka skilvirkni vegna innheimtu? Við heyrum af fólki sem er sektað, það fer úr landi og sektin fellur niður.

Mig langar líka að ræða hér drög að reglugerðum sem við höfum fengið. Ég fæ ekki betur séð en að sóttvarnalækni sé falið alræðisvald í drögum heilbrigðisráðherra til þess að útfæra hinar ýmsu aðgerðir og ég get ekki verið sátt við að enn og aftur sé það sett á herðar eins manns að taka ákvarðanir. Ég vil því enn og aftur kalla eftir því að sóttvarnaráð sé haft með í ráðum. En það var víst vilji meiri hlutans hér á þingi að taka það úr sambandi sem stefnumótandi aðila og var það gert við endurskoðun laganna.

Í mínum huga snýst þetta í grunninn um bóluefnin og hvernig við höfum staðið okkur við að afla þeirra. Ég fagna því vissulega að nú virðist ganga betur og vonandi haldast kynntar áætlanir. Flestir reiða sig á bólusetningar, bæði almenningur og fyrirtæki, en bak við flest fyrirtæki, lítil, meðalstór og stór, eru fjölskyldur og það er því lífsspursmál fyrir þá sömu aðila að hafa fyrirsjáanleika. Upplýsingaóreiðunni verður að linna. Nú síðast áðan var frétt í Vísi um bóluefni frá Norðmönnum sem koma svo ekki samkvæmt Norðmönnum þó svo að heilbrigðisráðherra hafi farið um það orðum hér í dag. Í framsöguræðu hæstv. heilbrigðisráðherra fjallaði hún nefnilega um fálkaorður og þakkir til þeirra sem hafa staðið vaktina; stjórnvalda, þríeykisins, smitrakningarteymisins. Allir þeir aðilar eiga allar þakkir skildar en aðalþakkirnar, sem ekki voru teknar með, ætti að færa fólkinu í landinu. Við megum aldrei gleyma því að það er fólkið í landinu sem hefur staðið saman og viðhaft allar þær varnir sem hægt er og það sem meira er, þjóðin hefur staðið saman þrátt fyrir alla þá upplýsingaóreiðu sem hefur dunið á okkur undanfarin misseri.