151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[16:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur lagt mikið traust á sóttvarnayfirvöld í baráttunni við faraldurinn hér á landi og ég vil hrósa sóttvarnayfirvöldum fyrir þeirra frábæru frammistöðu og allt það úthald og þann dugnað sem þau hafa sýnt í baráttunni við veirufaraldurinn. Það er því athyglisvert að fylgjast með því hvað þeir sem hafa þekkingu á þessu sviði, sérfræðingar í smitsjúkdómum, segja um nýjustu útfærslu stjórnvalda sem boðuð er í þessu frumvarpi og við sáum kynnta á blaðamannafundi í gær, sem var ansi sérstakur að því leytinu til að hann var ruglingslegur og vakti upp margar spurningar. Það var því miður ekki nógu vel að því staðið af hálfu ríkisstjórnarinnar, það verður bara að segjast eins og er. Ég sá viðtal við yfirlækni og sérfræðing í smitsjúkdómum þar sem hann var að fjalla um þessa nýjustu útfærslu og hann segir að það séu veikleikar í henni og að hann hefði gjarnan viljað sjá einfaldari og hraðari útfærslu og gerir tölur um nýgengi smita, eins og þær birtast í reglugerðinni, að umtalsefni, eins og hefur verið minnst á hér í þessum sal í dag. Jafnframt segir hann að það sé ekki ljóst hvernig þessar tölur séu valdar og hvað sé miðað við, það liggi ekki fyrir greining á því hvernig þær eru til komnar, hvort menn hafi keypt svokölluð spálíkön sem sýni að þetta séu mörk sem við getum unað við, miðað við svo gríðarlega hátt nýgengi eins og lagt er til í reglugerðinni. Hér vildi ég segja það, herra forseti, að þessi útfærsla ríkisstjórnarinnar fær strax hálfgerða falleinkunn frá yfirlækni og sérfræðingi í smitsjúkdómum.

Frumvarp ríkisstjórnarinnar miðar að því að fólk frá ríkjum þar sem nýgengi er yfir 1.000 dvelji í sóttvarnahúsi, sömuleiðis fólk frá ríkjum þar sem nýgengi er yfir 750 nema það fái undanþágu. Ekki er bara hægt að veita tímabundna heimild þannig að sóttvarnalæknir geti ákveðið að vissara sé að sumir og að meginreglu allir fari í sóttvarnahús og síðan séu skynsamlegar undantekningar.

Ég er á því að við eigum að horfa líka til annarra landa þar sem hlutirnir hafa gengið vel, eins og Ástralíu. Þeir eru búnir að vera með takmarkanir í eitt ár og sömuleiðis Nýja-Sjáland. Og þegar fólk kemur frá landi þar sem hlutirnir eru í ólestri og nýgengi smita hátt þá bregður fólk sem þarf að ferðast bara á það ráð að fara í gegnum land sem er skilgreint í lagi. Fólk er almennt ekki vitlaust. Það finnur leiðir til að komast fram hjá hlutum ef það kýs að gera svo. Þá er viðkomandi kominn til Íslands þó að í upprunalandinu hafi nýgengi smita verið mjög hátt. Hann fer í gegnum annað land þar sem það er lægra. Ef markmiðið er að koma í veg fyrir leka á landamærunum þá þarf að búa þannig um hnútana að ekki sé hægt að fara fram hjá kerfinu. Ég held að það sé ósköp einfalt.

Ef það eru fjölmargar undanþágur eins og við sjáum í reglugerðinni þá er verið að bjóða hættunni heim. Þá er þetta í raun og veru bara tilgangslaust vegna þess að það þarf bara eitt smit á landamærum eins og hæstv. ráðherra sagði í framsöguræðu sinni. Svo vitum við alveg að það er svona óróleg deild, órólegir þingmenn innan Sjálfstæðisflokksins, sem ber kannski ábyrgð á því að þetta frumvarp er allt svona óskýrt. Það þarf að vera skýrara og ákveðnara og það er engin ástæða til að hafa allar þessar undanþágur. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti.

Skoðum aðeins þessar undanþágur. Það var nú reyndar gerð grein fyrir þeim í ræðu áðan. Það segir í 2. gr. frumvarpsins að í reglugerðinni sé heimilt að kveða á um undanþágur frá banni við komu til landsins, m.a. vegna búsetu hér á landi og brýnna erindagjörða. Svo er það ekkert skilgreint nánar í lögunum. Þá þarf maður að fara í reglugerðina og finna út úr þessu öllu saman. Og hvað er verið að tala um? Þá sér maður eina átta liði, sem eru undanþágur. Það er starfsfólk á sviði heilbrigðisþjónustu og öldrunarþjónustu, starfsfólk sem sinnir flutningum á vöru og þjónustu, einstaklingar sem þurfa að ferðast vegna brýnna aðstæðna í fjölskyldu sinni, einstaklingar sem hafa þörf á alþjóðlegri vernd, hælisleitendur. Þeir fá undanþágu. Það er sagt að þeir hafi þörf á alþjóðlegri vernd en það tekur langan tíma að meta það. Við vitum hver afgreiðslutíminn er hjá Útlendingastofnun, hann er margir mánuðir, og þá kemur í ljós hvort viðkomandi þarf verndina eða ekki. En hann fær að koma inn í landið. Það þarf enginn að segja mér það að þessir einstaklingar geti ekki borið smit með sér en þeir fá að fara inn í landið. Þarna strax er orðinn einn mjög áberandi leki í kerfinu. Síðan er talað um útlendinga sem hafa fasta búsetu og við þekkjum að t.d. atvinnulausir útlendingar sem hafa hér fasta búsetu fara mikið á milli landa. Það hefur komið fram að hæst hlutfall smita á landamærum greinist meðal fólks með pólskt ríkisfang. Þetta fólk fær að koma inn. Það er hluti af undanþágum, þetta ágæta fólk, en það getur svo sannarlega borið smit og dæmi þess að það hafi gert það. Það hefur undanþágu til að koma hér inn. Þannig að það er nánast strax búið koma því til leiðar að þetta verði meira og minna gagnslaust.

Síðan eru ýmsar spurningar sem vakna þegar maður les þessa reglugerð. Hvernig er t.d. komið í veg fyrir að ferðamaður frá hááhættusvæði ferðist í gegnum annað land, eins og ég nefndi hér áðan? Hvernig ætla menn að koma í veg fyrir það? Hvað eru brýn erindi sem heimila undanþágu? Það segir hérna: „vegna brýnna erindagjörða“, hvað er það? Það verður að fá skýr svör við því. Og hvað eru svo ónauðsynleg ferðalög? Hver ætlar að meta það hvort ferðalag sé ónauðsynlegt? Svo er talað um útlendinga sem eru í nánu parasambandi sem staðið hefur lengri tíma með íslenskum ríkisborgara eða einstaklingi sem er með löglega búsetu hér á landi.

Herra forseti. Það er svo mikill hringlandaháttur í þessu öllu saman að maður stendur hérna hálfgáttaður yfir þessu. Þetta er allt meira og minna götótt þegar kemur að því að koma í veg fyrir að smit komi til landsins. Það verður að segjast alveg eins og er. Ég held að það sé svo sannarlega nauðsynlegt að fara vel yfir öll þessi álitamál í störfum nefndarinnar á eftir.

Embættismenn fá hér sérstaka undanþágu. Þurfa þeir sérstaka undanþágu? Ég spyr. Eru þeir ekki að fara til útlanda á fundi innan um annað fólk og er ekki mikil hætta á að þeir beri þá smit til landsins? Nei, þeir eiga að fá undanþágu. Ég held að það verði að fara mjög vel yfir þetta í nefndinni.

Við í Miðflokknum ætlum ekki að koma í veg fyrir að þetta mál verði samþykkt, alls ekki, en við viljum hins vegar að farið verði vandlega yfir það hvort málið sé yfir höfuð til hins betra. Það eru margar nauðsynlegar spurningar sem þarf að svara, margar, áður en þetta mál verður að lögum.

Áður en ég lýk máli mínu í þessari 1. umr., herra forseti, vil ég koma aðeins inn á bólusetningarmálin vegna þess að við værum ekki hér stödd á þessum tímapunkti, að ræða frumvarp sem þetta, ef bólusetningarmálin hefðu verið í lagi. Ísland hafði allt til brunns að bera til þess að klára bólusetningar hratt og örugglega en það mistókst. Við höfum horft upp á allt of miklar tafir og í raun klúður í bólusetningaráætlun stjórnvalda. Það var engin ástæða til þess að útvista þessu máli, þessu mikilvæga verkefni sem bólusetningarnar eru, til Evrópusambandsins. Ég held að það séu ekki margir sem trúa því og setja traust sitt á að áætlun stjórnvalda gangi eftir um að það verði búið að bólusetja með fyrsta skammti alla Íslendinga fyrir 16 ára og eldri þann 1. júlí. Ég efast um að það gangi eftir og ég er ekkert viss um að margir trúi því að það muni ganga eftir. Hver dagur sem líður án þess að bólusetningu sé lokið er þjóðinni mjög dýr, samfélaginu öllu. Ef við tölum fyrst um fjárhagslega þáttinn þá tapar ríkissjóður milljörðum ofan á milljarða og safnar skuldum á hverjum degi. Við þurfum að lifa við skert athafnafrelsi, ferðafrelsi og skert almenn mannréttindi sem við getum ekki metið til fjár. Það eru glötuð tækifæri, skortur á annarri heilbrigðisþjónustu, versnandi andleg heilsa og skert lífsgæði því að við þekkjum að það að lifa undir svona boðum og bönnum er mjög íþyngjandi til lengdar og getur haft slæmar afleiðingar.

Þessi dræma staða bólusetninga hér á landi skrifast fyrst og fremst á ríkisstjórnina. Það hefði verið hægt að bólusetja alla þjóðina miklu fyrr, opna landið og afnema þessar kostnaðarsömu takmarkanir. Það átti að vera algjört forgangsmál stjórnvalda að tryggja nægt bóluefni fyrir löngu. Ríkisstjórnin stóð sig ekki í stykkinu í þeim efnum og það sjá það allir. Það eru rétt rúmlega 350.000 einstaklingar sem búa á Íslandi. Þetta er eins og lítill bær í Bandaríkjunum. Hvers vegna var ekki leitað til Bandaríkjanna eða Ísraels sem dæmi? Þetta eru hvort tveggja vinaþjóðir. Það átti aldrei að hengja sig við þessa misheppnuðu bólusetningaráætlun Evrópusambandsins. Vegna seinagangs og rangra ákvarðana gekk bólusetningin mun hægar fyrir sig í ríkjum Evrópusambandsins en gert var ráð fyrir og veirufaraldurinn hefur því ráðið þar ríkjum lengur en ella. Þjóðir innan sambandsins, eins og Þýskaland, Frakkland, Ítalía og Holland, gerðu með sér sérstakt bólusetningarbandalag til að þrýsta á Evrópusambandið vegna slælegrar frammistöðu þess. Bandaríkjamenn tryggðu sér strax í júlí 600 milljón skammta frá BioNtech og 500 milljón skammta frá Moderna. Japan, Kanada, Hong Kong og fleiri gengu einnig frá samningum í sumar og haust. Hvað voru íslensk stjórnvöld að gera þá, í júlímánuði? Því er fljótsvarað. Ríkisstjórnin var að bíða eftir Evrópusambandinu sem byrjaði ekki að panta bóluefni fyrr en í nóvember og þá allt of lítið.

Herra forseti. Ísland er fullvalda ríki og það steðjar hætta að þjóðinni vegna heimsfaraldurs og ríkisstjórnin ákvað að láta Evrópusambandið ráða för, láta Evrópusambandið ráða því hvernig okkur reiðir af á hættutímum. Eru menn búnir að gleyma því að það var rætt í fullri alvöru af hálfu Evrópusambandsins að hætta að senda bóluefni til landa sem eru ekki hluti af sambandinu? Það voru alger reginmistök af hálfu þessarar ríkisstjórnar að leggja allt sitt traust á Evrópusambandið í þessu máli.

Í lokin, af því að tíminn er búinn, herra forseti, verð ég aðeins að koma inn á sóttvarnahótelin og það að ríkissjóður skuli vera að greiða fyrir þetta allt saman. Ég get ekki séð ástæðu til þess. Ef við horfum til annarra landa, Frakklands, Bretlands, Noregs, þá borgar viðkomandi sjálfur sem fer á sóttvarnahótel. Í öðrum löndum, eins og í Þýskalandi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi, er heimasóttkví. Ég held að það sé nú af nógu að taka fyrir ríkissjóð og ég sé ekki ástæðu til þess að við þurfum að vera greiða þetta fyrir ferðamenn sem koma hingað til lands.(Forseti hringir.)

En ég læt máli mínu lokið, herra forseti, og kem síðar inn í þessa umræðu en ég vona að það verði tekið á þessum mörgu álitaefnum í þessu frumvarpi í störfum nefndarinnar sem eru fram undan í dag.