151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[17:09]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við erum búin að ræða þetta mál í einhverja klukkutíma hér og það er ljóst að það eru ansi skiptar skoðanir um þetta mál ríkisstjórnarinnar, þ.e. hvort það sé hæfilega langt gengið, hvort nægilega tryggum stoðum sé rennt undir fyrirætlanir stjórnvalda, hvort það gangi nægilega langt, hvort það gangi of langt. En markmið okkar allra er náttúrlega það sama þegar upp er staðið og það er alla vega jákvæður útgangspunktur.

Mig langar aðeins, áður en ég fer í sjálft málið, að fagna því að á fjölmiðlafundi ríkisstjórnarinnar í gær hafi verið talað um afléttingarplan. Við höfum kallað lengi eftir því í Viðreisn og erum náttúrlega ekki ein um það, allt frá sóttvarnalækni niður í ýmsa aðra flokka og fólk í samfélaginu, lærða og leika. Staðan er sú að þó svo við höfum ekki verið beinlínis í aðstöðu til að negla niður tímasett, dagsett afléttingarplan, þá er hægur vandi þannig séð að leggja niður slíkt plan út frá gefnum forsendum, svo fólk viti að hverju það gengur. Það er bara liður í því að tryggja úthald okkar í samfélaginu.

Mér finnst líka gott að sjá bólusetningarplan og það var verulega jákvætt. Það var þó náttúrlega slæmt að það var óskýrt. Það var verulega óskýrt á fundinum. Tilfinningin var eiginlega sú að ráðherrarnir sem töluðu fyrir því væru ekki alveg með tölurnar á hreinu og það er ekki gott vegna þess að aftur komum við að því að skýrleikinn skiptir máli til að tryggja áframhaldandi samstöðu. Ég get ekki látið liggja á milli hluta að nefna frétt sem er ekki nema klukkutíma gömul um að Norðmenn hafi komið af fjöllum með lán á bóluefni AstraZeneca til Íslands, eins og íslensk stjórnvöld hafa tryggt. Nú vona ég sannarlega að við séum með hlutina á hreinu en það er engu að síður mjög óþægilegt að fá þetta inn í þessa umræðu vegna þess að það eykur á óskýrleikann sem við þurfum svo virkilega á að halda að sé ekki til staðar. Við erum vonandi komin á lokasprettinn. Við erum orðin vígamóð, misjafnlega mikið enda hefur mætt mjög misjafnlega á einstaklingum í samfélaginu. En það eru akkúrat þeir sem mest hefur mætt á sem eiga mest undir því núna að þetta gangi upp og vilja fá skýr skilaboð. Forsenda þeirrar samstöðu sem við þurfum á að halda er að fólk skilji aðgerðir stjórnvalda og þar verður að segjast eins og er að fjölmiðlafundurinn hjálpaði ekki til.

Ef við tölum um það verkefni sem er fram undan núna og tengist þessu frumvarpi, sem ætlað er að gefnu tilefni að renna lagalegum stoðum undir reglugerðir sem búið er að kynna af hálfu heilbrigðisráðherra annars vegar og dómsmálaráðherra hins vegar, þá þarf að vinna hratt, heyrist mér. Það er búið að fara vel í umræðum dagsins yfir lagaleg atriði. Nú er það verkefni hv. velferðarnefndar að hlýða á gesti sem hafa verið kallaðir til. Það verður eiginlega að segjast eins og er að það er með ólíkindum, með þessum skamma fyrirvara, hversu öfluga lögspekinga við höfum fengið staðfest að komi á fund velferðarnefndar hér á eftir.

En það er annað verkefni sem velferðarnefnd stendur frammi fyrir, eins og þetta sé ekki nægilegt, og ég árétta að það skiptir máli að fara í það vegna þess að við höfum dæmi um hvernig hefur farið þegar menn hafa flýtt sér of mikið, stjórnvöld hafa flýtt sér of mikið. Verkefnið er að við þurfum að fá til þess bæra aðila til að styðja þessar aðgerðir gögnum. Nú er ég ekki að tala um lagalegan skýrleika heldur gögn sem sannfæra okkur um að hér sé verið að ganga mátulega langt, hvorki of langt né of stutt, eins og hægt er. Þau gögn höfum við ekki enn þá. Þetta skiptir náttúrlega öllu máli.

Við vitum, og það hefur verið margítrekað, að víglínan, ef ég má kalla það sem svo, í þessu stríði okkar við Covid hefur færst töluvert. Við byrjuðum fyrir ári síðan að leggja mikil höft á daglegt líf fólks til þess að vernda okkar viðkvæmustu hópa og til þess að létta álagi af heilbrigðiskerfinu. Nú er staðan einfaldlega allt önnur. Um nokkurt skeið hafa skilaboðin miklu fremur lotið að því að við ætluðum að halda veirunni, veirufjandanum, fjarri íslensku samfélagi. Það gefur augaleið að við seinna markmiðið beitum við öðrum aðferðum en við hið fyrra. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að finna þennan punkt. Við þurfum að vera samstiga í því hvað við viljum raunverulega og tengja það við þessa afléttingaráætlun, alveg jafn mikið og við tengjum það við afgreiðslu þessa máls. Það verður að vera samræmi þarna á milli. Þegar litið er til aðgerða á landamærum, því að þau gögn sem við höfum segja okkur að það er þaðan sem smitin sleppa í gegn, og hvar við sjáum fyrir okkur að víglínan okkar sé — þarna á milli er eitt samfélag sem þarf að fá skýra sýn á það hvernig það eigi að haga sér og við hverju fólk megi búast. Hentistefna er einfaldlega það síðasta sem við getum boðið fólki upp á núna. Þetta tvennt tel ég vera verkefni annars vegar velferðarnefndar núna þegar hún fær málið í hendur og síðan Alþingis þegar kemur að því að afgreiða málið frá sér. Þá er tímalínan sem okkur er gefin orðin býsna knöpp vegna þess að fyrstu skilaboð eru þau að hér eigi að stefna að því að afgreiða þetta mál sem lög frá Alþingi í dag.

Ég hef ekki fengið nákvæmar upplýsingar um af hverju það liggur svona mikið á því. Ég hef hins vegar býsna góða tilfinningu fyrir því af hverju við fáum þetta svona seint, tveimur vikum eftir að dómur héraðsdóms féll þess efnis að það væri ekki nægileg lagastoð undir fyrri reglugerð sem þetta mál tengist svolítið. Tilfinning mín er sú að síðan hafi átt sér stað, átök eru kannski ekki endilega rétta orðið því að ég veit það ekki en við skulum segja samtal, samtal milli stjórnarflokka um nákvæmlega hvar þessi skurðpunktur sem ég talaði um áðan eigi að vera. Það er gott og það er mikilvægt og ég hef fullan skilning á því að þrír flokkar séu ekki sammála þar og jafnvel ekki þingmenn innan ákveðinna flokka. En ég hef engan skilning og enga þolinmæði fyrir því að sá tími sem það tók að vinna málið í hendur Alþingis sé tekinn af Alþingi til að vinna málið áfram.

Ég ætla mér að taka þetta frumvarp og þá umræðu sem ég hef fylgst með hér í dag og hlýða á öfluga sérfræðinga sem þegið hafa boð, eða ákall, velferðarnefndar um að mæta á fund hér að kvöldi dags; lögfræðinga, ráðuneytisfólk sem kemur fyrst og útskýrir vinnu sína, lögspekinga úr hópi okkar öflugasta fólks, sérfræðinga úr heilbrigðisgeiranum og fleiri. Eftir þann fund er ég tilbúin til að móta mér skoðun á því hvort við þurfum lengri tíma til að afgreiða þetta mál. Það er á þeim upplýsingum sem þarna koma fram og þeim umræðum sem þarna munu eiga sér stað sem ég trúi því að við vinnum málið áfram en ekki af því að þessi dagsetning var ákveðin einhvern tímann í gærkvöldi. Þannig er nú það.