151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[17:26]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Okkur á Íslandi hefur í rauninni gengið best í viðureign við kórónuveiruna þegar við höfum höfðað til almennrar skynsemi og samstarfsvilja almennings um að halda veirunni niðri. Á þetta hef ég lagt áherslu frá upphafi þessa faraldurs og tekið heils hugar undir tilmæli sóttvarnayfirvalda og brýningu um hinar persónubundnu sóttvarnir sem við bárum gæfu til að tileinka okkur svo vel strax í upphafi veirufaraldursins. Það er nú komið meira en ár síðan. Þegar horft er til baka og rýnt í gögn um dreifingu veirunnar, fjölgun smita á einstökum tíma, þá þarf enginn að velkjast í vafa um að einmitt þessar persónubundnu sóttvarnir hafa skipt mestu máli við að ráða niðurlögum hraðrar fjölgunar smita í þjóðfélaginu.

Í gær voru kynnt áform um afléttingu annarra sóttvarnaaðgerða, ekki þessara persónubundnu, ég held að við þurfum að hafa þau í heiðri og tileinka okkur þau áfram um kannski ófyrirséðan tíma, en aðrar sóttvarnaaðgerðir bættust í verkfærakistuna, eins og kallað hefur verið, upp úr síðasta sumri. Þá er ég að vísa til ýmissa lokana, samkomutakmarkana og þess háttar, sem hefur gengið hér á með í bylgjum. En í gær voru sem sagt kynnt áform um afléttingu þessara sóttvarnaaðgerða allra í tengslum við framgang bólusetningar hér á landi sem gengur alveg ágætlega, a.m.k. þegar bóluefni standa til boða hér á landi. Þetta var ánægjuleg tilkynning og hefði auðvitað átt að liggja fyrir miklu fyrr, enda hefur það svo sem blasað við að mínu viti frá upphafi faraldursins að þegar búið er að bólusetja a.m.k. viðkvæmustu hópana hér á landi, þá hópa sem veiran herjar augljóslega mest á með skaðlegum hætti — eldri borgarar, þeir með undirliggjandi sjúkdóma — standa fá rök til þess að halda uppi hörðum sóttvarnaaðgerðum eins og við þekkjum þær núna.

Staðan í dag í þessum töluðu orðum er betri heldur en oft áður, bara miklum mun betri. Við erum í þeirri bestu stöðu sem við höfum verið í frá upphafi þessa faraldurs, sérstaklega með tilliti til þeirra bólusetninga sem nú er lokið. Stærstur hluti viðkvæmra hópa hér á landi er nú bólusettur og stór hluti, ef ekki stærsti, að fullu ef menn vilja miða við það. Þá er ekki síður mikilvægt að hafa það í huga að nýgengi smita á landamærum hefur sjaldan verið lægra en nákvæmlega núna. Til samanburðar var nýgengi smita á landamærum fjórfalt hærra í janúar. Á sama tíma voru mjög fáir bólusettir. Þess vegna hlýt ég að velta þeirri spurningu fyrir mér hvers vegna það frumvarp sem hér liggur núna fyrir, efnislega, var ekki lagt fram eða tekið inn í þá vinnu sem átti sér stað við breytingu á sóttvarnalögum á sínum tíma.

Ég vil líka benda á í þessu samhengi, af því að hér er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnalögum sem heimila hertar aðgerðir á landamærum og fleiri aðgerðir sem eiga að beinast að ferðamönnum eða þeim sem koma yfir landamærin til Íslands, að síðasta haust voru aðgerðir hertar á landamærunum. Þann 19. ágúst var tekin upp tvöföld skimun. Þau skilaboð voru um leið send að þá tæki við eðlilegt líf innan lands. Það mætti kannski orða það þannig, ef maður væri í spjallþætti, að hugmyndin um tvöfalda skimun á landamærum hafi verið seld mjög mörgum með því fororði að þá tæki við eðlilegt líf innan lands. En það reyndist rangt. Það tók ekki við neitt eðlilegt líf innan lands. Ég hafði reyndar þá þegar bent á að það væri misskilningur, a.m.k. mjög ruglingslegt fyrir almenning og kannski ekki alveg heiðarlegt gagnvart almenningi, að blanda þessu tvennu saman, þ.e. aðgerðum á landamærum annars vegar og aðgerðum innan lands hins vegar. Ákvarðanir um þetta tvennt standa sjálfstætt hvor fyrir sig. Það er hægt að herða aðgerðir á landamærum án þess að slaka á aðgerðum innan lands. Það er líka hægt að herða á aðgerðum á landamærum en slaka innan lands. Það er líka hægt að herða innan lands samhliða því sem hert er á aðgerðum á landamærum og það er hægt að slaka á á landamærum og slaka á innan lands. Þetta eru bara tvær sjálfstæðar ákvarðanir. Það leiðir ekkert sjálfkrafa til slaka á aðgerðum innan lands þó að hert sé á aðgerðum á landamærum. Um þetta höfum við dæmi núna, nokkur dæmi.

Ég nefni þetta vegna þess að ég heyri það að fólk hefur sérstakar væntingar um að þegar hert er á landamærunum núna í kjölfar þessa frumvarps, verði það að lögum, þá leiði það sjálfkrafa til tilslökunar eða afléttingar á sóttvarnareglum innan lands. Það er ekki þannig. Það hafa ekki verið boðaðar sérstakar tilslakanir eða sérstakar afléttingar á sóttvarnaaðgerðum innan lands í tengslum við þetta frumvarp. Þær aðgerðir sem voru kynntar í gær, sem eru jákvæðar og við skulum halda til haga og bóka hjá okkur, hvert og eitt okkar, tengjast auðvitað hinu augljósa; árangri í bólusetningu. Þær koma auðvitað, eðli málsins samkvæmt, í kjölfar bólusetninga. Þetta finnst mér rétt að nefna.

Ég nefni það líka hér sem mér finnst mikilvægt sem þingmanni þegar kemur að því að taka afstöðu til þessa frumvarps að hafa uppi á borðum en það eru upplýsingar um hvað það er sem nákvæmlega knýr á um þessar aðgerðir, sérstaklega á þessum tímapunkti þegar allir eru að verða bólusettir og nýgengi smita á landamærum er lítið.

Ég ætla að nefna það sem hefur verið í umræðunni hér um sóttvarnabrot og nefnt hefur verið að einhver einstaklingur hafi ekki verið nafngreindur í fjölmiðlum. Ég leyfi mér það, virðulegur forseti, að lýsa miklum vonbrigðum mínum yfir umræðu um það tiltekna sóttvarnabrot. Það hefur jafnvel verið kallað eftir því í umræðu, jafnvel af fólki sem hefur viljað láta taka sig alvarlega í umræðunni, að menn séu nafngreindir og að þessi einstaklingur verði nafngreindur. Ég hef miklar áhyggjur af þessu af siðferðilegum ástæðum en einnig af því að ég þykist skynja hér mikinn misskilning og mikla oftrú á smitrakningu og hinni ágætu raðgreiningu sem Íslensk erfðagreining hefur boðið okkur upp á. Ég held að það sé ekki þannig að raðgreiningin gefi okkur upplýsingar um einhver fingraför veiru í tilteknum einstaklingum með þeim hætti að hægt sé að fullyrða um eða rekja nákvæmlega tiltekið smit til tiltekins einstaklings. Ég held að menn séu komnir út á nokkuð hættulegar brautir ef þeir ætla að draga þá ályktun af þeirri vinnu sem hér er undir. Ég hef þessar upplýsingar bara úr fréttum en miðað við fréttirnar sem maður hefur þá hefur verið vísað til sóttkvíarbrots einstaklings. Það segir manni, ef það er sóttkvíarbrot hjá einstaklingi sem hefur komið yfir landamæri, að viðkomandi hefur undir höndum a.m.k. tvö neikvæð próf fyrir þessari veiru, þótt það kunni að vera þannig að við þriðju skimun hafi hann reynst smitaður. En ég verð að segja það að ég hef a.m.k. engar upplýsingar um það hvort hægt sé að rekja smit með þessum hætti. Mér hefur fundist fréttaflutningurinn vera í of miklum æsingarstíl og ekki málinu eða málefnalegri umræðu um þessi mál til góða.

Það sem mér hefur fundist vanta í þessi mál eru upplýsingar um það hversu mörg meint brot á reglum um sóttkví hafa raunverulega leitt til smita. Þetta mun kannski koma fram við meðferð nefndarinnar á málinu, hér við þinglega meðferð.

Ég vil líka nefna að það má velta fyrir sér hversu mikil alvara býr að baki frumvarpinu í raun þar sem gert er ráð fyrir mjög miklum undanþágum frá banni við för yfir landamæri. Ég hefði kannski átt að nefna það í upphafi að mér hefði fundist betur fara á því að hér væru lögð fram tvö frumvörp, annars vegar frumvarp heilbrigðisráðherra og hins vegar frumvarp dómsmálaráðherra, af því að þessi mál heyra ekki bæði undir heilbrigðisráðherra, 2. gr. lýtur að breytingu á lögum um útlendinga og veitir dómsmálaráðherra heimild til að gefa út reglugerð sem bannar ónauðsynlegar ferðir til Íslands. Hins vegar fylgja svo margar og miklar undanþágur frá þessu banni við ferðum til Íslands að ég velti því fyrir mér hvort það þjóni nokkrum tilgangi í rauninni að setja lög um þetta efni. Það liggur t.d. fyrir að það verður undanþága fyrir embættismenn. Einhverra hluta vegna er litið svo á að þeir geti ekki smitað mikið frá sér. Ég veit ekki af hverju það er. Það eru sem sagt embættismenn og hælisleitendur og fólk sem á búsetu hér, útlendingar sem búa á Íslandi, allir þeir verða undanþegnir þessu banni. Þá myndi kannski einhver segja: Þetta er hluti af meðalhófinu. Hér erum við að mæta meðalhófinu. Gott og vel, segi ég. En er virkilega gott að opna fyrir svona miklar valdbeitingarheimildir ef þær eru þá svona óljósar og eru farnar að miða við nánast nafngreinda einstaklinga, ef það mætti orðast svo? Hér er í rauninni líka verið að taka upp, sem er nokkuð sem ég tel rétt að menn ættu kannski að hafa einhverjar áhyggjur af, sérstaklega þeir sem hafa viljað standa vörð um frelsi fólks til að ferðast á milli landamæra, svokallaða persónugreiningu á landamærum, það sem kallað hefur verið á ensku „profiling“ og hefur verið notað í sumum löndum til að sigta út hugsanlega glæpamenn. Hér er náttúrlega verið að reyna að sigta út og leggja mat á það hverjir muni hugsanlega brjóta lögin. En af frumvarpinu sjálfu er ekki ljóst hvaða aðferðir menn ætla að nota við slíka persónugreiningu í rauninni.

Menn hafa rætt hér markmiðið með þessum sóttvarnaaðgerðum sérstaklega. Hvert er markmiðið með því að vista suma í sóttvarnahúsi og banna sumum að koma til landsins? Þetta er einn mikilvægur þáttur í mati á meðalhófi, þ.e. markmiðið. Er markmiðið veirufrítt land eða er markmiðið eitthvað annað? Og hvað tekur við þegar lögin falla úr gildi eftir nokkra daga? Verða einhverjar aðrar aðstæður uppi?

Aðalatriði í þeim efnum sem ég vil leggja áherslu á í þessari umferð er að það hefur alltaf verið og það verður alltaf áfram mikilvægt fyrir hvern og einn einstakling að passa sjálfan sig, gæta að eigin sóttvörnum og virða annarra manna sóttvarnir. Ég hef ekki tíma til að fara yfir lagatæknileg atriði í þessu en það kemur væntanlega til umræðu í nefndinni. En það eru nokkur óljós atriði í lagatextanum sjálfum sem greinargerðin skýrir ekki og ég myndi telja að færi betur á því að væru í sjálfum lagatextanum en ekki í greinargerð.