151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

covid-19, staðan og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:55]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir. Ég kem ekki oft með tölvu hingað upp í pontu en ég ætla að leyfa mér það í dag. Það er ánægjulegt að heyra að hæstv. ráðherra sjái ekki vandkvæði á því að birta umrædda samninga núna í ljósi þess að þeir eru orðnir aðgengilegir á heimasíðu Evrópusambandsins. Þeir verða því væntanlega birtir hér á Alþingi, vonandi fyrir lok dags. En atriði sem sneri að reglugerð dómsmálaráðherra og var kynnt sem hluti af pakkanum, ef svo má segja, síðastliðinn miðvikudag sneri ekki að þessum tölulegu viðmiðum hvað varðar hááhættusvæði. Ég ætla að leyfa mér að lesa upp hluta þeirrar reglugerðar sem lögð var fram í drögum og hefur, að því er mér sýnist, ekki verið birt. Hún snýr að þeim undanþágum sem um ræðir gagnvart komufarþegum. Punkturinn sem ég er að koma á framfæri er að lagaverkið sem þarna var klárað undanskilur í rauninni alla þá hópa eða aðila sem mestar áhyggjur eru af að hafi átt erfitt með að sinna skyldum um sóttkví. Hér segir, með leyfi forseta:

„Ákvæði 1. mgr. á ekki við um útlendinga sem hafa fasta búsetu hér á landi, þar á meðal á grundvelli dvalarleyfis eða annars konar dvalar eða búseturéttar. Ákvæði 1. mgr. á ekki við um aðstandendur íslenskra ríkisborgara. Ákvæði 1. mgr. á ekki við um útlendinga sem eru í nánu parasambandi sem staðið hefur um lengri tíma með íslenskum ríkisborgara eða einstaklingi sem er löglega búsettur hér á landi. Ákvæði 1. mgr. á ekki við um útlendinga sem geta framvísað vottorði um bólusetningu eða vottorði um að Covid-19 sýking sé afstaðin. Ákvæði 1. mgr. á ekki heldur við um útlendinga sem koma til landsins vegna brýnna erindagjörða, þar á meðal eftirtalda aðila: farþega í tengiflugi, starfsfólk á sviði heilbrigðisþjónustu, starfsfólk sem sinnir flutningum á vöru og þjónustu, einstaklinga sem hafa þörf á alþjóðlegri vernd, einstaklinga sem þurfa að ferðast vegna brýnnar ástæðu með fjölskyldu sinni, einstaklinga og sendinefndir sem koma til landsins á vegum íslenskra stjórnvalda …“ (Forseti hringir.)

Ágæti forseti. Ég er að klára, með leyfi: „… námsmenn, einstaklingar.“ — Svona heldur listinn áfram. Þetta er alveg gríðarlega yfirgripsmikið og ég trúi því hreinlega ekki að það að (Forseti hringir.) þessi reglugerð hafi ekki verið birt hafi ekki áhrif á málið eins og það var lagt fyrir þingið á miðvikudaginn síðastliðinn.