151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

covid-19, staðan og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er sannarlega rétt sem hv. þingmaður nefnir, að þó að hver sé sjálfum sér næstur oftast nær þegar við erum að tala um þessi mál, og við erum kannski uppteknust af því að tala um okkur sjálf og samfélagið hér, þá er það verkefni mannkynsins alls að glíma við Covid-19. Við erum ekki búin fyrr en við erum öll búin af því að faraldurinn herjar á á heimsvísu. En við erum í tilteknu samstarfi á vegum Sameinuðu þjóðanna sem er kennt við COVAX. Við höfum sett 500 milljónir í þann pott og 100.000 skammta. Síðan er áætlað að við gefum alla skammta sem eru umfram þegar við höfum lokið bólusetningum hér þannig að það liggi fyrir að þeir skammtar nýtist annars staðar. Við styðjum því allt það frumkvæði sem er í gangi, hvort sem það er á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins eða að okkar eigin frumkvæði, því að það er afar mikilvægt. En eins og við sjáum líka snýst þetta ekki bara um bóluefni heldur ekki síður önnur heilbrigðisgögn og tæki til að hægt sé að sinna þeim sem eru veik. Við sjáum það best á fréttamyndum frá Indlandi sem hafa borist okkur undanfarna daga. Þau miklu veikindi sem þar eru og herja á það samfélag eru mikil áskorun fyrir samfélagið að glíma við, að sinna þeim sem eru veikir, vegna þess að innviðirnir eru veikir, heilbrigðisinnviðirnir eru veikir. Það dugar ekki bara að kvitta upp á tékkann (Forseti hringir.) og senda bóluefni. Við þurfum líka að horfa til þess að við getum stutt við önnur ríki þegar kemur að uppbyggingu að öðru leyti.