151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.

505. mál
[16:26]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Þetta frumvarp snýst um umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, endurvinnslu og skilagjald, og fór 2. umr. fram um málið 20. apríl, tíðindalaus, má segja. Það er þó skemmst frá því að segja að athugasemdir bárust frá tollinum eða tollyfirvöldum í þessu máli. Þær athugasemdir kalla á að lögð verði fram við 3. umr. breytingartillaga um gildistökuákvæðið. Þetta er sem sagt tæknileg breyting en verður lögð fram hér í mjög góðu samráði við bæði ráðuneyti málaflokksins og tollinn. Þessi athugasemd sem kom fram er um að frumvarpið hafi í för með sér bæði tollskrárbreytingar og kerfisbreytingar. Af þeim sökum er erfitt fyrir umsjónarmenn tölvukerfa tollsins að bregðast við þegar slík lög taka gildi ef ekki liggur skýrt fyrir tiltekin dagsetning gildistöku.

Það er því lagt til í breytingartillögu að í stað þess að taka fram að lögin öðlist þegar gildi, eins og stendur í 6. gr. frumvarpsins, öðlist lögin gildi 1. maí 2021, eftir nokkra daga. Formleg breytingartillaga hefur borist þingskrifstofu frá mér, sem er flutningsmaður fyrir hönd hv. umhverfis- og samgöngunefndar, og hún hljóðar einfaldlega svo:

„6. gr. orðist svo:

Lög þessi öðlast gildi 1. maí 2021.“

Herra forseti. Þar með hef ég gert grein fyrir þessari breytingartillögu sem berst milli 2. og 3. umr.