151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

aukið samstarf Grænlands og Íslands.

751. mál
[18:12]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Tillaga til þingsályktunar um aukið samstarf Grænlands og Íslands er hér á dagskrá. Sem formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins þá fagna ég vitaskuld þessum yfirlýsta vilja utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og þeim markmiðum sem tillagan endurspeglar.

Gænlendingar eru okkar næstu grannar en aðeins 300 kílómetrar skilja okkur að þar sem styst er frá strönd til strandar. Engu að síður er það ótrúlega margt sem okkur er framandi varðandi hagi okkar góðu granna þrátt fyrir allnokkur samskipti við Grænlendinga frá alda öðli. Við þekkjum þannig miklu meira til aðstæðna í Færeyjum og ég hef á tilfinningunni og er samkvæmt minni reynslu að Færeyingar þekki talsvert til á Grænlandi umfram okkur. Það skýrist líklega af sjósókn þeirra og útilegum á þessum slóðum í langa tíð.

Við eigum fjölmargt sameiginlegt með nágrönnum okkar í vestri, Grænlendingum. Höfuðatvinnuvegur beggja landanna hefur verið hinn sami í ljósi sögunnar en lengst af var þó lítið samband milli ríkjanna á sjávarútvegssviðinu. Á því hefur orðið breyting á síðustu árum, bæði með þátttöku Íslendinga í grænlenskum sjávarútvegi og eins auknu samráði og samvinnu ríkjanna vegna nýtingar sameiginlegra fiskstofna. Íslendingar eru reyndar engir nýgræðingar á Grænlandsmiðum. Um miðja síðustu öld sóttu íslenskir togarar stíft í bæði þorsk og karfa undan ströndum Grænlands enda var sókn á þessi mið öllum frjáls á þeim tíma og eftir miklu að slægjast. Síðan dró úr fiskgengd á þessum miðum og seinna kom að því að strandríki fóru að færa fiskveiðilögsögu sína út og reka erlend fiskiskip af höndum sér.

Á seinni árum hafa íslenskir iðnaðarmenn og verktakar tekið að sér umsvifamikil verkefni á Grænlandi og það ríkir traust á milli þjóðanna sem endurspeglast í margvíslegum samningum, m.a. á sviði sjávarútvegs, en á Grænlandi eru starfrækt öflug fyrirtæki á þessu sviði í eigu Íslendinga og Grænlendinga sameiginlega. Og í samgöngumálum, bæði í lofti og á sjó, á sér stað umtalsvert samstarf.

Menningarleg og félagsleg samskipti hafa verið talsverð um árabil. Ungmenni koma til Íslands og kynnast skólastarfi og stunda íþróttir, m.a. sundiðkun. Þá er um þessar mundir starfandi vestnorænn menntaskóli sem hýstur er í Verslunarskóla Íslands þar sem ungmenni taka áfanga í hverju landanna um sig, Danmörku, Færeyjum, Íslandi og Grænlandi. Þetta er mjög jákvætt. Auk þess má vísa til þess að vinabæjartengsl við grænlenska bæi eru við lýði á Íslandi, við íslenska kaupstaði.

Herra forseti. Þótt aðeins örfáir Grænlendingar séu búsettir á Íslandi — þeir munu ekki vera fleiri en ríflega 70, kannski 75, mun færri en Færeyingar sem eru hér ríflega 300 — þá eru þeir jafnan aufúsugestir á Íslandi og hafa alla tíð verið. Ég get ekki stillt mig um það, herra forseti, að horfa nú um öxl örfá ár og greina frá einni gestakomu af því að það tengist nú mínum kæra fyrrum heimabæ, Ísafirði. Það eru ríflega 95 ár síðan að danska skipið Gustav Holm lagði að bryggju 25. ágúst 1925. Um borð voru 89 Grænlendingar auk danskrar áhafnar. Það var svo sem ekkert óvenjulegt að skip legðust að bryggju á Ísafirði en grænlenskir gestir voru sjaldséðari og sennilega var þetta einstakt. En þessi för hafði raunar átakanlegan og raunalegan undirtón sem heimamenn höfðu ekki nokkra vitneskju um að öllum líkindum. Á vesturhluta Grænlands höfðu Danir verið í um 200 ár og haft mikil áhrif á samfélagið en öðru máli gegndi um austurhluta Grænlands þar sem eingöngu um nokkur hundruð manna bjuggu í grennd við Ammassalik. Þessi heimsókn var stórviðburður á Ísafirði, og stórviðburður á Íslandi líka því að kynni Ínúíta og Íslendinga höfðu nánast engin verið fram að þessu. Einu undantekningar höfðu verið að Íslendingar höfðu ratað í störf á Grænlandi, íslenskir trúboðar höfðu verið þar á átjándu öld, handverksmenn áttu leið þar um eins og t.d. Sigurður Breiðfjörð, sem skrifaði síðar bók um veru sína þar.

Fólkið um borð í Gustav Holm var á leið til Scoresbysunds og ástæðu þess að það kom við á Ísafirði voru í grunninn pólitísk átök Dana og Norðmanna. Dönsk og norsk stjórnvöld höfðu deilt um landsvæði á Austur-Grænlandi, Norðmenn höfðu um tíma nýtt auðlindir á þessum slóðum og veitt um strendur Austur-Grænlands. Norðmenn höfðu áhuga á því af sögulegum ástæðum að fá viðurkenndan rétt sinn á hluta Austur-Grænlands. Þeir kölluðu það land Eiríks rauða. Dönsk stjórnvöld brugðust við á ýmsa vegu, m.a. með því að hvetja íbúa á Ammassalik-svæðinu til þess að flytjast búferlum til Scoresbysunds, en það er talsverð vegalengd þar á milli. Norðmenn gerðu tilkall til þess svæðis en með þessu vildu Danir staðfesta rétt sinn til svæðisins. Og þetta eru í hnotskurn ömurleg örlög þessarar þjóðar að mörgu leyti. Þetta voru 70 manns frá Ammassalik og 20 manns frá Vestur-Grænlandi sem heimsóttu Ísafjörð þessa daga í ágúst en þeir töldu þrjá daga. Grænlendingunum var tekið með kostum og kynjum og mikið lagt í móttökur Íslendinga sem báru þá á höndum sér en ísfirsk bæjaryfirvöld höfðu mikið fyrir því að móttökur yrðu sem bestar og skipuðu nefnd til undirbúnings. Þegar skipið hafði lagt að ætluðu yfirmenn um borð ekki að hleypa fólki frá borði en eftir talsverðar fortölur fékkst leyfi fyrir skipverja að fara í land en þó ekki fyrir alla. Vestur-Grænlendingar fengu allir landgönguleyfi en aðeins hluti Austur-Grænlendinganna. Ástæðan var sú að yfirmönnum skipsins þótti fólkið vera of illa til fara. Þau sem fengu að fara frá borði nutu hins vegar mikillar gestrisni frá bæjarbúum, sóttu vígsluathöfn í kirkjunni, var boðið í bíltúra, bíósýningu og loks til veislu við útivistarsvæði heimamanna í Tunguskógi.

Herra forseti. Hér var kíkt örstutt inn um glugga fortíðar en heimildir um þessa heimsókn eru vel varðveittar í máli og myndum, ljósmyndum Martins Simsons, og nefna má að efnt var til sýninga, bæði í Reykjavík og á Ísafirði, í tilefni þess að 95 ár voru liðin frá þessum atburði 2019. Þetta segir átakanlega sögu undirokaðrar, fátækrar þjóðar sem una mátti við harða kosti og nöturleg örlög, en sem er nú að brjótast til velmegunar og sjálfstæðis.

Herra forseti. Nútíminn og framtíðin er á dagskrá. Við höfum handa á milli ágæta og myndarlega Grænlandsskýrslu svokallaða eða skýrslu Grænlandsnefndar og fjöllum nú um tillögu til þingsályktunar í framhaldi af henni sem byggir á þessari skýrslu, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra. Skýrslan er glæsileg hið ytra og fróðleg á marga lund og bitastæð hið innra að mörgu leyti. Hún er afar aðgengileg. Hér eru spennandi tíu tillögur til stefnumörkunar sem allar eru gagnlegar og uppbyggilegar þótt þær séu misjafnlega umfangsmiklar en skipta allar máli. Þær eru samtals 99 tillögurnar sem er að finna í þessari skýrslu og skiptast í nokkra flokka. Lögð er á það áhersla að lagt sé upp í samstarf við Grænlendinga á forsendum þeirra og/eða á forsendum beggja, á jafnræðisgrundvelli þar sem báðar þjóðir njóti góðs af. Samstarf og tengsl við Grænlendinga er mikilvægt fyrir Ísland, ekki síður en fyrir Grænland.

Að baki tillögum skýrslunnar er greining á stöðu tvíhliða samskipta landanna auk þess sem litið er til breyttrar stöðu landanna vegna aukins áhuga stórveldanna á norðurslóðum. Einnig er viðamikil skoðun á helstu atvinnugreinum, svo sem sjávarútvegi, ferðaþjónustu og námuvinnslu. Tillögurnar fjalla um möguleika á auknu samstarfi stjórnvalda, sveitarfélaga og stofnana, einkageirans, frjálsra félagasamtaka, íþrótta, lista og menningar. Ýmis mál sem nefnd eru hafa raunar verið á borði Vestnorræna ráðsins fyrr og síðar, t.d. nám í fisktækni og áhersluatriði gagnvart ungu fólki á norðurslóðum.

Herra forseti. Í heild er ástæða til að fagna skýrslunni og því ljósi sem brugðið er upp af þeim ýmsu málefnum sem drepið er á og ástæða til að þakka utanríkisráðherra fyrir það frumkvæði að fara í þetta tímabæra og góða verkefni. (Forseti hringir.) Mikilvægt er að hrinda áformum í framkvæmd. Grænland upplifir eins og þjóðirnar á norðurslóðum umbreytingartíma, (Forseti hringir.) þeir sigla á sínum hraða og markvisst í átt að fullu sjálfstæði og aukin velsæld er innan seilingar. Þar getum við verið stoð ef Grænlendingar sjálfir kjósa svo.