151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

pakkaferðir og samtengd ferðatilhögun.

752. mál
[18:56]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Með frumvarpi þessu er lagt til að Ferðatryggingasjóður verði stofnaður sem hafi það hlutverk að tryggja endurgreiðslur til ferðamanna komi til ógjaldfærni eða gjaldþrots ferðaskrifstofa. Stofnun Ferðatryggingasjóðs er einn liður í stefnumótun stjórnvalda á sviði ferðamála. Í framtíðarsýn og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til 2030, undir yfirskriftinni Leiðandi í sjálfbærri þróun, er m.a. byggt á undirstöðum samhæfingar, gæða og þekkingar. Samkvæmt stefnumótuninni næst efnahagsleg sjálfbærni m.a. með áherslu á aukna framleiðni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni um land allt. Með stofnun Ferðatryggingasjóðs er markvisst unnið að því að íslenskar ferðaskrifstofur nái þessum markmiðum með nýju tryggingakerfi sem felur í sér mikla rekstrarlega hagræðingu fyrir þær auk stóraukinnar neytendaverndar eins og ég geri grein fyrir hér síðar í ræðu minni.

Í upphafi kórónuveirufaraldursins í mars á síðasta ári var fjöldamörgum pakkaferðum aflýst með skömmum fyrirvara. Þrátt fyrir að ferðunum hafi verið aflétt af gildum ástæðum, nefnilega þeim að það var einfaldlega ekki mögulegt að framkvæma þær vegna harðra sóttvarnareglna sem yfirvöld víða um heim voru um þær mundir að setja, þá áttu ferðamenn rétt á fullri endurgreiðslu þess sem þeir höfðu þegar greitt fyrir ferðirnar sem ekki yrðu framkvæmdar. Þetta olli miklum lausafjárvanda margra ferðaskrifstofa sem að endingu var leystur með lánveitingu frá Ferðaábyrgðasjóði sem Alþingi stofnaði með lögum nr. 78/2020. Sú ráðstöfun hefur nú runnið sitt skeið á enda, en það má segja að sú reynsla sem fékkst af stofnun Ferðaábyrgðasjóðsins hafi nýst vel við þær kerfisbreytingar sem stofnun Ferðatryggingasjóðs hefur í för með sér. Með henni eru mörkuð ákveðin vatnaskil í sögu pakkaferðatrygginga hér á landi.

Líkt og rakið er í greinargerð frumvarpsins hafa sérstakar pakkaferðatryggingar verið við lýði áratugum saman. Tryggingarnar hafa verið í formi tryggingarfjár sem ferðaskrifstofur hafa þurft að reiða af hendi. Fram að aðild Íslands að EES-samningnum var um að ræða eina fasta fjárhæð en með aukinni neytendavernd í kjölfar aðildar Íslands að EES tóku pakkaferðatryggingar mið af umfangi sölu pakkaferða hjá hverri og einni ferðaskrifstofu. Kerfið hefur að mestu verið óbreytt síðan þá en helsta breytingin var gerð fyrir rúmum tveimur árum þegar farið var að taka fleiri þætti inn í útreikning tryggingarfjárhæðar en eingöngu veltu. Þannig var farið að taka tillit til þátta eins og lengdar ferða, hversu löngu fyrir upphaf ferðar fullnaðargreiðslu er krafist og hversu hátt hlutfall staðfestingargreiðsla er af heildarfjárhæð. Með því að taka þessa þætti inn í útreikninginn hefur tryggingarfjárhæð hvers og eins fyrirtækis tekið betur mið af áhættu af rekstri þess. Núgildandi tryggingaskyldu má rekja til ákvæða pakkaferðatilskipunarinnar sem ætlað er að tryggja neytendavernd á þessu sviði.

Samtryggingarsjóður sem þessi hefur marga kosti fram yfir það tryggingakerfi sem gilt hefur hér á landi sem hefur falið í sér að hvert og eitt fyrirtæki hefur lagt fram tryggingarfé árlega sem standa á undir endurgreiðslum komi til gjaldþrots. Það kerfi er dýrt fyrir fyrirtækin sem þurfa annaðhvort að leggja fram reiðufé eða bankaábyrgð til að fullnægja tryggingarskyldunni. Til að geta fengið bankaábyrgð þurfa fyrirtækin síðan að leggja fram veð til tryggingar. Í kerfinu felst umtalsverð fjárbinding sem er langt umfram það sem nauðsynlegt er þar sem gjaldþrot ferðaskrifstofa eru ekki mjög algeng og hafa á síðasta áratug verið innan við eitt á ári. Með samtryggingarsjóði er hægt að lækka tryggingar einstakra fyrirtækja umtalsvert og því mun losna um töluvert fé hjá ferðaskrifstofum sem hægt er að nýta í arðbærari rekstrarverkefni. Miðað við eðlilega arðsemiskröfu á bilinu 10–12% á ári má áætla að fórnarkostnaður fjármagns fyrir ferðaskrifstofur sem leiðir af núgildandi kerfi sé um hálfur milljarður króna á ári sem er jafnframt sú fjárhæð sem ætla má að muni reynast hagræði ferðaskrifstofu í heild af stofnun sjóðsins. Um mun hagstæðara kerfi verður því að ræða fyrir fyrirtæki starfandi á þessum markaði.

Sjóðurinn horfir þó ekki aðeins til aukins hagræðis fyrir ferðaskrifstofur heldur felur hann einnig í sér aukna neytendavernd frá því kerfi sem gilt hefur. Ekki er unnt að tryggja að tryggingarfé ferðaskrifstofa muni ávallt duga til að endurgreiða öllum komi til gjaldþrots. Ástæða þess er sú að ógjörningur er að stilla tryggingarfjárhæðir af í rauntíma þannig að tryggt sé að fyrirliggjandi fjárhæð sé nægileg á hverjum tíma. Þegar samtryggingarsjóður er starfandi reynist slíkt ekki nauðsynlegt þar sem sjóðurinn tryggir allar greiðslur nema til algjörs kerfishruns komi sem telja verður harla ólíklegt, sérstaklega í ljósi þess að það kom ekki til þess í upphafi kórónuveirufaraldursins sem fól í sér mestu niðursveiflu í ferðaþjónustu sem nokkurn tímann hefur orðið. Með rekstri sjóðsins er því hægt að tryggja neytendavernd á mun betri hátt en verið hefur.

Ferðatryggingasjóður mun starfa sem sjálfseignarstofnun með náin tengsl við opinbert eftirlitshlutverk Ferðamálastofu. Í sjálfseignarstofnun felst að hún á sig sjálf og verður því ekki hluti af stjórnsýslu hins opinbera. Það er eðlilegt fyrirkomulag á samtryggingarsjóði og í samræmi við það hvernig aðrir slíkir sjóðir eru alla jafna starfræktir.

Þau fyrirtæki sem starfa við sölu pakkaferða verða háð skylduaðild að Ferðatryggingasjóði. Fyrirtækin eru nú þegar leyfisskyld samkvæmt lögum um Ferðamálastofu og því um afmarkað mengi fyrirtækja að ræða. Þessi fyrirtæki fjármagna sjóðinn og því koma greiðslur fyrirtækjanna í sjóðinn aldrei til ríkisins. Með frumvarpinu er hins vegar settur skýr rammi utan um starfsemi sjóðsins og hvernig henni skuli háttað, hvaða heimildir stjórn sjóðsins hefur og hvernig fé hans skuli ávaxtað. Sjóðurinn hefur það eina hlutverk að gæta hagsmuna ferðamanna sem keypt hafa pakkaferðir eða samtengda ferðatilhögun af ferðaskrifstofu hér á landi. Samtök ferðaþjónustunnar og Neytendasamtökin munu tilnefna aðila til setu í stjórn sjóðsins og við undirbúning frumvarpsins var haft sérstakt samráð við samtökin.

Ferðaskrifstofur starfandi á markaðnum ættu ekki að finna fyrir miklum breytingum í framkvæmd öðrum en þeim að tryggingarfjárhæðir lækka til muna og fyrirtækin munu að sjálfsögðu finna fyrir því hagræði. Reynt hefur verið að halda kerfisbreytingunni einfaldri fyrir starfandi fyrirtæki. Ferðaskrifstofur munu skila inn sömu upplýsingum árlega eins og verið hefur síðustu tvö ár og liggja þær til grundvallar útreikningi tryggingarfjárhæðar og fjárhæðar iðgjalda sem hvert fyrirtæki greiðir til sjóðsins einu sinni á ári. Fjárhæð iðgjaldsins tekur mið af tryggingarfjárhæð hvers fyrirtækis eftir ákvörðun stjórnar sem tekin er árlega. Framkvæmd opinbers eftirlits með tryggingarskyldum aðilum verður í höndum Ferðamálastofu en framkvæmd þess mun hins vegar geta tekið breytingum í þá átt að eftirlitið verði meira áhættumiðað og þannig skilvirkara. Í kerfi þar sem hver og ein ferðaskrifstofa leggur fram tryggingarfé er nauðsynlegt að sama eftirlit sé haft með öllum ferðaskrifstofum óháð áhættu af rekstri þeirra. Með stofnun Ferðatryggingasjóðs verður ekki sama þörf á því þar sem hægt er að tryggja með vissu að allar greiðslur geti verið endurgreiddar án vandkvæða í tilviki gjaldþrots flestra ferðaskrifstofa. Þannig verður hægt að miða eftirlitið betur að því að kanna upplýsingaskil þeirra fyrirtækja sem talin er þörf á hverju sinni til að tryggja neytendavernd og réttar greiðslur í sjóðinn.

Samhliða þessu er lagt til að Ferðamálastofa fái aukin úrræði í formi stjórnvaldssekta vegna rangrar upplýsingagjafar og þá verður einnig refsivert að misnota sjóðinn með rangri upplýsingagjöf.

Í frumvarpinu er lagt til að sjóðurinn verði stofnaður eftir því fyrirkomulagi sem fram kemur í ákvæði til bráðabirgða. Þar er lagt til að hver ferðaskrifstofa sem var starfandi á árinu 2019 greiði sem nemur 1,5% af reiknaðri tryggingarfjárhæð miðað við raunverulega sölu pakkaferða það árið. Lögð er til sérregla fyrir fyrirtæki sem hófu starfsemi á árinu 2020 eða síðar en lagt er til að miðað verði við árið 2019 við ákvörðun um stofngreiðslu til sjóðsins þar sem árið 2020 er ekki marktækt ár í ferðaþjónustu hér á landi af augljósum ástæðum. Með því að ferðaskrifstofur greiði sem nemur 1,5% af reiknaðri tryggingarfjárhæð miðað við raunverulega sölu pakkaferða árið 2019 er hægt að stofna sjóðinn og hefja rekstur hans með einskiptisgreiðslu sem þau fyrirtæki sem starfandi eru nú fjármagna. Ljóst er að þetta er nokkuð íþyngjandi aðgerð en einnig verður horft til þess að þetta eru þau fyrirtæki sem njóta mesta ábatans af stofnun sjóðsins. Fyrirtæki sem hefja rekstur á næstu árum munu þurfa að kaupa sig inn í sjóðinn með greiðslu stofngjalds sem miðist við rekstur þeirra fyrstu fimm árin. Í heild mun kerfið fela í sér mikinn ábata fyrir ferðaskrifstofur en jafnframt draga úr aðgangshindrunum og leiða þannig til aukinnar samkeppni til hagsbóta fyrir neytendur og atvinnulífið.

Virðulegur forseti. Með frumvarpi þessu horfum við til framtíðar og bætum skilyrði íslenskrar ferðaþjónustu til öflugrar viðspyrnu að loknum kórónuveirufaraldrinum. Með samþykkt þess og stofnun Ferðatryggingasjóðs nýtum við það tækifæri sem skapast hefur í faraldrinum til kerfisbreytinga sem leiða til hagstæðari starfsskilyrða fyrir fyrirtæki í greininni og þannig til aukinna tækifæra fyrir íslenska ferðaþjónustu.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málið gangi til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.