151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[14:51]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að mjög margt sé til í þessu. Þess vegna langar mig eiginlega, í framhaldi af þessu ágæta svari, að velta því upp við hv. þingmann hvernig standi á því að það sé svona ríkt í umræðunni að gera lítið úr því að Evrópusambandið er einmitt samband, samvinnuverkefni fullvalda sjálfstæðra þjóða. Yfirleitt er gripið mjög til þess orðfæris, þegar þessi mál ber á góma, að menn séu að afsala sér fullveldinu, að menn séu að gefa sig undir hið erlenda vald sem menn reyna að, það er varla hægt að segja persónugera, og þó, sem einhverja andlitslausa skriffinna í Brussel. Auðvitað gengur þetta, a.m.k. að mínu mati, þvert á heilbrigða skynsemi. Hvernig í ósköpunum dettur mönnum í hug að halda því fram að þau 27 ríki sem nú mynda Evrópusambandið séu ekki sjálfstæð og að þau séu ekki fullvalda, að þau séu einhvers konar leiksoppur embættismanna í Brussel? Er ekki svo fjarstæðukennt einhvern veginn að ímynda sér það, svo að maður byrji nú bara á löndum eins og Þýskalandi og Frakklandi, að þau telji sig undirseld slíku valdi? Hvernig stendur þá á því að smáþjóðirnar í Evrópu hafa leitað til þessa samstarfs og taka þátt í því og eru ánægðar með það? Ég skil ekki hvernig þetta kemur heim og saman í hugum þeirra sem ræða málin á þessum forsendum.