151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

kyrrsetning, lögbann o.fl.

16. mál
[15:18]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Þar er fjallað fyrst og fremst um réttarúrræði í þeim tilvikum þegar krafist er lögbanns á tjáningu. Mál þetta hefur áður komið til meðferðar hér á Alþingi. Það var rætt á síðasta þingi og fékk þá ágæta umfjöllun í hv. allsherjar- og menntamálanefnd en umfjöllun þess var ekki lokið og lagði hæstv. dómsmálaráðherra þá málið fram óbreytt í haust og hefur það verið til meðferðar í nefndinni í vetur.

Forsaga málsins er sú, eins og kemur fram í greinargerð, að nefnd á vegum forsætisráðherra gerði tillögur í þessa veru, nefnd sem hafði það hlutverk að skoða almennar umbætur á löggjöf á sviði tjáningar fjölmiðla og upplýsingafrelsis. Tillögur í þessa veru komu þaðan og síðan tók réttarfarsnefnd málið í sínar hendur og útfærði þær breytingar sem hér eru lagðar til.

Málið hefur hlotið bara nokkuð jákvæðar undirtektir hjá öllum sem um það hafa fjallað í meðförum þingsins og í forsögunni þegar málið var lagt fram á samráðsgátt þannig að ekki hefur verið um það mikill ágreiningur.

Til að gera langa sögu stutta þá leggur hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að málið verði samþykkt en leggur til örlitlar tæknilegar breytingar sem koma fram í breytingartillögu í nefndarálitinu sem hér liggur fyrir og vísast til þess sem þar stendur. Ég tel ekki ástæðu til að fara nánar yfir þetta, en efni málsins í upprunalegu formi er fyrst og fremst þríþætt. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því í 1. gr. frumvarpsins að þegar farið er fram á lögbann vegna birtingar eða tjáningar einhvers efnis þá verði það ekki val heldur skylda að gera kröfu um tryggingu til bráðabirgða. Í annan stað eru í 2. og 3. gr. frumvarpsins ákvæði sem fela í sér að verið er að flýta allri málsmeðferð þegar mál vakna vegna þessara tilvika þannig að það sé tryggt að fengin sé niðurstaða fyrr en ella eftir þeim leiðum sem réttarfarslög heimila. Það er gert ráð fyrir flýtimeðferð eftir sérstökum reglum þar um. Og svo í 4. gr. er gert ráð fyrir víðtækari heimild til að dæma bætur í tilvikum af þessu tagi. Ég ætla ekki að fara nánar yfir þetta, hæstv. forseti, ég vísa bara til nefndarálitsins og frumvarpsins eins og það liggur fyrir.

Undir nefndarálitið rita auk mín nefndarmenn í allsherjar- og menntamálanefnd, Páll Magnússon, Guðmundur Andri Thorsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Olga Margrét Cilia, með fyrirvara, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Þorsteinn Sæmundsson.