151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

kyrrsetning, lögbann o.fl.

16. mál
[15:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Upplýsing almennings er mikilvæg hverju lýðræðissamfélagi. Þar gegna fjölmiðlar lykilhlutverki, m.a. með því að veita stjórnvöldum aðhald og veita almenningi traustar og óháðar upplýsingar. Í þessu samhengi er það hlutverk ábyrgra stjórnvalda að skapa umhverfi þar sem fjölmiðlar geta starfað á þessum forsendum og á sama tíma gegnt mikilvægri upplýsingaskyldu sinni. Við munum kannski flest eftir því hver er tilurð þessa máls, eins og gert er grein fyrir í greinargerð með frumvarpinu þar sem voru áberandi lögbannsmál, eins og þar segir, þar sem sýslumaður lagði lögbann við tiltekinni umfjöllun en dómstólar höfnuðu svo staðfestingu lögbannsins þar á eftir. Síðan er hér getið um lögbann sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu að kröfu Glitnis HoldCo við því að Útgáfufélagið Stundin ehf. og Reykjavík Media ehf. birtu fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð væri á eða unnin upp úr gögnum Glitnis.

Núverandi ríkisstjórn hefur verið á góðri vegferð í þessum málum, t.d. með nýjum upplýsingalögum sem greiða aðgengi almennings að upplýsingum úr stjórnsýslunni og nú með bættri umgjörð lögbanns gegn fjölmiðlum, fjölmiðlum í hag. Það er því óásættanlegt að hægt sé að stöðva fréttaflutning sem á erindi við almenning með einni kröfu. Það er sama hver fer fram með þá kröfu, hvort sem það er einstaklingar eða stórfyrirtæki, það á ekki að vera svo einfalt að leggja stein í götu fjölmiðlanna. Þá erum við komin á hættulega vegferð sem ég tel að ekkert okkar vilji í raun leggja í. Þegar við treystum sjálfstæði óháðra fjölmiðla treystum við lýðræðinu.

Í frumvarpi þessu sem snýr að lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl. er vikið að tjáningarfrelsinu og mikilvægi þess að styðja og styrkja lýðræðislega umræðu. Með tilliti til ritstjórnarlegs sjálfstæðis fjölmiðla er þetta fagnaðarefni því að síst vildum við sjá hér á Íslandi tilburði til þess að skerða upplýsta umræðu.

Eins og ég sagði þá á þetta mál rætur sínar að rekja til nefndar sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skipaði á vormánuðum 2018 um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar, fjölmiðla og upplýsingafrelsis, m.a. með vísun til þess sem ég sagði hér áðan.

Ég ætla ekki hafa þetta mikið lengra, virðulegi forseti. Ég fagna þeim breytingum sem hér eru settar fram og bæta stöðu fjölmiðla gagnvart kyrrsetningu. Ég fagna því að fjölmiðlar á Íslandi geti gengið út frá því að umræða þeirra verði ekki stöðvuð og að við byggjum undir þær stoðir sem gagnsæ og upplýst umræða hvílir á.