151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

lögreglulög o.fl.

365. mál
[17:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvaða mál væri hægt að velja sem væri meira viðeigandi til að fjalla hér aðeins um fordóma og það hvernig þeir bitna á hinum almenna borgara í daglegu lífi. Við í Pírötum höfum kallað eftir því frá upphafi að sett verði á fót einhvers konar ytra eftirlit, sjálfstætt eftirlit með störfum og starfsháttum lögreglu. Við höfum flutt mál til að ná því markmiði og reyndar var það samþykkt hér á einhverjum tímapunkti, reyndar með einhverjum breytingum til að koma til móts við meiri hlutann á þeim tíma. Þetta mál ber þess merki að hér er verið að slípa eitt til og svo er ágreiningur um annað eins og gengur og gerist. En ég hef tekið eftir því í ræðum hér í dag, og reyndar ávallt í ræðum á Alþingi um lögregluna, að það er ákveðin lenska hjá okkur og ég hygg tilætlan að tala lögregluna ávallt upp eða eins mikið og við getum. Það eru í sjálfu sér alveg sómasamlegar ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi skiptir máli að það sé sátt um störf lögreglunnar á Íslandi, alveg eins og það skiptir máli að fólk trúi því að það hafi raunverulegan aðgang að réttlæti hjá dómstólum. Það skiptir máli að fólk trúi því að það hafi raunverulegan aðgang að réttlæti og réttlátri málsmeðferð hjá lögreglunni.

En það er auðvitað þannig, virðulegur forseti, og nú styttist í að ég fari að móðga einhvern, að við búum í mannlegu samfélagi. Nú ætla ég aðeins að predika um mannlegt samfélag. Mannlegt samfélag þróaðist yfir hundruð milljóna og milljarða ára tímabil og dýrategundin sem við erum hluti af er svona 80.000–200.000 ára gömul, það fer eftir því hvað nákvæmlega er átt við og sömuleiðis eru línur í þessum fræðum eiginlega aldrei skýrar. Í þessu þróunarferli höfum við tileinkað okkur ákveðna kosti og þeim fylgja gallar. Einn kosturinn sem við höfum er sá að þegar við heyrum einhver ógnvænleg hljóð, sem dæmi, þá getum við metið aðstæðurnar afskaplega hratt, ekki endilega rétt, en afskaplega hratt og gripið til aðgerða strax. Ef við heyrum ógnvænlegt öskur eða sjáum ógnvænlega hegðun þá vitum við strax að við eigum að berjast eða flýja eða hvaðeina. Það er ekki endilega rétt ákvörðun en hún er tekin mjög hratt. Í frumskóginum eða í hellunum eða í frumstæðara umhverfi en við búum í í dag veldur þessi hegðun því að við komumst frekar af. Við lifum frekar af þegar við erum stanslaust að slást við einhver óargadýr í náttúrunni eða hluti sem við skiljum of illa til þess að takast á við þá með öðrum leiðum. Þessi kostur okkar hefur það í för með sér að við tökum ákvarðanir án þess að hafa allar forsendur til að meta þær rétt. Þetta er ekki eitthvað sem þróaðist hjá okkur til að sjá heiminn eins og hann raunverulega er heldur til að bregðast eins hratt við og við getum í neyðaraðstæðum til þess að lifa af og ekkert annað. Hliðarverkun af þessu eðli okkar, sem þróunarlega séð er væntanlega mjög gagnlegt, er að við erum ansi veik fyrir fordómum. Þegar við heyrum tungumál sem við þekkjum ekki finnst okkur þau kannski hranaleg eða asnaleg og þegar við sjáum fólk sem er ólíkt okkur á einhvern hátt þá er styttra í það að við verðum óttaslegin eða fyllumst hatri gagnvart því eða fyllum á einn eða annan hátt mikið í eyðurnar og gefum okkur hluti sem við vitum einfaldlega ekki. Það eru fordómar í eðli sínu, virðulegi forseti, þegar við gefum okkur eitthvað sem við vitum ekki um einstaklinga. Ástæðan fyrir því að ég er að taka þetta í samhengi við dýrategund okkar gjörvalla er sú að mig langar ekki til þess að taka lögreglumenn neitt sérstaklega út fyrir sviga í þessum efnum heldur benda á það eitt að lögreglumenn eru einstaklingar af þessari sömu dýrategund, homo sapiens, og eru háðir sömu takmörkunum og hafa sömu fordóma.

Að sjálfsögðu, virðulegi forseti, er engin ástæða til að ætla að tilteknar starfsstéttir eða þjóðfélög séu á einhvern undraverðan hátt yfir það hafin að vera búin þeim eiginleika að taka rangar ákvarðanir en hratt. Þegar lögreglumenn eru við störf sín, oft vanþakklátt starf og erfitt, sem tekur á og er vanlaunað að mínu mati, lenda þeir í aðstæðum þar sem þeir þurfa að taka ákvarðanir mjög hratt og þá að sjálfsögðu beita þessir einstaklingar af þessari dýrategund, homo sapiens, þeirri aðferð að fylla í eyðurnar þegar kemur að samskiptum þeirra við almenning. Þess vegna er það þannig að fólk sem hefur tilhneigingu til að enda á þingi — var kannski áður í virðulegum störfum og er með ágætismenntun, lendir almennt ekki í vandræðum með lögregluna eða í félagslegum vandræðum almennt áður en það fer á þing — það treystir lögreglunni ansi vel vegna þess að það þekkir þá hlið sem birtist þegar það þarf ekkert að fylla í eyðurnar, þegar lögreglumaðurinn kemur úr sömu menningu, lítur eins út, er jafnvel af sama kyni, eftir atvikum, og þess háttar, hefur sama sögulega bakgrunn, kann sömu vísurnar, hlær að sömu bröndurum. Þá þarf auðvitað ekki mikið að fylla í eyðurnar. Hins vegar, þegar um er að ræða einstaklinga sem eru ekki af sama sniðmáti, þá er hætt við því að fordómar birtist.

Virðulegur forseti. Ég er ekki að nefna þetta bara út í bláinn heldur vegna þess að á seinasta ári varð umræða um nákvæmlega þetta. Það voru fánar og tákn á lögreglubúningum sem eru notuð rasískt, alla vega í einhverju samhengi, sem fólki sem verður fyrir rasisma sér öðruvísi en einstaklingar sem verða aldrei fyrir honum, alla vega ekki hérlendis. Það sem drífur mig til þess að halda þessa ræðu er í raun og veru ekki það að þetta hafi átt sér stað. Það kemur mér í sjálfu sér ekki á óvart að í heimi sem breytist hratt, þar sem fólk er hreinlega ekki með sömu upplýsingarnar, sé eitt og annað sagt sem er ónærgætið eftir á að hyggja. Þá er hægt að biðjast afsökunar og reyna að gera betur í framtíðinni. En viðbrögðin sem ég heyrði þá voru afneitun, virðulegi forseti. Það var afneitun. Það þykir mér svo erfitt vegna þess að þá fæ ég á tilfinninguna að ekkert sé að fara að lagast eða alla vega lítið, að það muni lagast hægar en ella. Þetta veldur mér áhyggjum vegna þess að við erum öll með fordóma, virðulegi forseti. Við erum öll rasistar á einn eða annan hátt. Sum okkar eru meðvitaðri um það en önnur. Sum okkar eru kannski gjarnari á það en önnur og sum okkar breyta þessum frumstæðu tilfinningum í einhvers konar hugmyndafræði sem meiri hlutinn afneitar síðan, réttilega. En þetta býr í okkur öllum, líka lögreglumönnum. Við megum ekki láta eins og það sé eitthvað öðruvísi með lögreglumenn en aðra einstaklinga af þessari sömu dýrategund sem við erum af.

Í einsleitu samfélagi eins og Íslandi er í sjálfu sér ekki að undra að það sé mikið traust til lögreglu þegar yfirþyrmandi meiri hluti landsmanna lendir ekki í því að vera öðruvísi en meiri hlutinn. Það er á Íslandi í dag þokkalega stór hópur sem er öðruvísi á ýmiss konar hátt og hann þyrfti ekkert að vera það stór til að við ættum að tala um það frekar opinskátt en hann er orðinn frekar stór. Það er bara gott að mínu mati, fjölbreytni er mjög góð og holl fyrir samfélög, íslenskt samfélag sem önnur. En fordómar birtast ekki bara gagnvart þeim hópum sem talað hefur verið um upp á síðkastið, segjum fólk af dekkri litarhætti en flestir Íslendingar eða fólk af ólíkum kynjum eða með ólíka kynhneigð eða hverju sem er. Það er líka til fólk sem passar ekki í boxið með einum eða öðrum hætti, fólk sem klæðir sig einfaldlega öðruvísi en næstum því allir aðrir, fólk sem hagar sér kannski aðeins öðruvísi en næstum því allir aðrir, fólk sem talar aðeins öðruvísi en næstum því allir aðrir.

Það er vandasamt, virðulegi forseti, að ætla að bregðast hratt við í aðstæðum þar sem slíkir einstaklingar koma við sögu án þess að fylla í eyðurnar, án þess að beita fordómum að einhverju marki. Við eigum bara að horfast í augu við þetta vegna þess að það er þannig sem við getum byrjað samtalið um það hvernig sé mögulegt að koma í veg fyrir að þessir fordómar hafi neikvæð áhrif á réttindi borgaranna og dragi þar með úr trausti þessara tilteknu hópa eða einstaklinga á lögreglunni. En þá er líka lykilatriði að við áttum okkur á því, eins göfugt og það hljómar að tala lögregluna upp og láta alltaf þegar eitthvað fer úrskeiðis eins og það sé bara út af einum og einum einstaklingi í samfélaginu, að það eru hópar á Íslandi sem þekkja ekki lögregluna af góðu vegna þess að þeir eru alltaf öðruvísi. Þeir líta alltaf öðruvísi út, þeir tala alltaf öðruvísi en yfirþyrmandi meiri hlutinn, eru jafnvel alltaf næstum því óskiljanlegir vegna þess að þeir eiga ekkert sameiginlegt tungumál með þeim sem þeir eiga í samskiptum við. Það er fólk sem er alltaf í þessari stöðu og fær aldrei breik, fær aldrei frið fyrir því að vera öðruvísi á margvíslegan hátt. Þetta fólk þarf líka að geta treyst lögreglunni. Það þarf líka að geta treyst yfirvöldum almennt. Og þá þýðir ekkert fyrir okkur sem tilheyrum meiri hlutanum að næstum því öllu leyti, deilum sömu sögunni, lítum meira eða minna eins út, erum alla vega mjög svipuð á litinn, að láta eins og þetta sé ekki vandamál eða að reyna að fegra myndina umfram það sem hún er.

Ég vil þó nefna, þrátt fyrir þennan pistil sem ég hygg að hljóti að hafa fara í taugarnar á einhverjum og það verður bara að hafa það, að það er sjálfstætt vandamál hvað lögreglan er undirlaunuð, undirþjálfuð og undirmönnuð. Þjálfunin hefur batnað upp á síðkastið með því að lögreglunámið varð að háskólanámi en launin hafa ekki fylgt eftir eins og vonir stóðu til á sínum tíma. Það er að mínu mati algjört lykilatriði að lögreglumenn séu vel launaðir. Á hverjum degi þegar þeir lenda í alls konar hlutum sem við hin þurfum almennt ekki einu sinni að ímynda okkur þá eiga þeir a.m.k. ekki að upplifa vanþakklæti af hálfu samfélagsins eða yfirvaldanna sem tala svo vel um þá hér í pontu heldur finna það á launaumslaginu að borin sé virðing fyrir störfum þeirra. Ég hygg nefnilega að þetta gangi í báðar áttir. Lestir í mannlegum samskiptum almennt hafa tilhneigingu til að breytast í vítahring og þá skiptir máli að brjótast út úr vítahringnum. Við getum ekki og eigum ekki að reyna að breyta samfélaginu þannig að það verði einsleitt. Að mínu mati er það reyndar fráleitt markmið. Við höfum ekki stjórn á því að fólk sé öðruvísi eða svona eða hinsegin, vonandi ekki alla vega. Sömuleiðis getum við ekki á einum degi sem yfirvöld hér með framkvæmdarvald og löggjafarvald bara sett einhver lög sem gera það að verkum að fólk hættir að vera fordómafullt. Það mun mjög seint breytast, virðulegi forseti, í sjálfu sér. Það sem við getum gert er að brjóta vítahringinn hjá lögreglunni sjálfri, með því að launa lögreglumönnum nógu vel, veita þeim aftur verkfallsréttinn — ég hygg að það sé mikill blettur á okkar samfélagi að ekki sé löngu búið að gera það — og búa þannig um að lögreglumenn upplifi raunverulega virðingu frá yfirvöldum fyrir störf sín því þau eru vanmetin, hygg ég, ekki bara af yfirvöldum heldur líka af almenningi. En til þess að laga vandamálin þá þurfum við að horfast í augu við þau. Og þótt það geti verið erfitt og geti virst ósanngjarnt í fyrstu að horfast í augu við þau eða nefna þau og tala um þau upphátt þá vil ég ljúka þessari ræðu með því að segja við þá lögreglumenn sem á hlýða að ég nefni þessi atriði af þeim eina metnaði að störf lögreglunnar gangi sem best og að metnaður lögreglumanna, sem ég veit að er að vernda réttindi borgaranna, verði virtur hvað mest.