151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[19:18]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og þykir leitt að heyra að hún sé döpur en ekki glöð á þessum bjarta og fagra degi. Ég ætla bara aðeins að koma við á nokkrum stöðum. Ég gerði íslenskukennslu ekki að umræðuefni. Ég gerði það að umræðuefni að hæstv. félagsmálaráðherra, í 1. umr. um málið, gerði íslenskukennslu að umræðuefni. Það er ekki frá mér komið, ég hafði bara orð á því að hæstv. ráðherra hefði gert það og það vakti þá spurningu hjá mér hversu kunnugur hann væri þessu máli fyrst hann fór að tala um íslenskukennslu í frumvarpi sem fjallar um Fjölmenningarsetur og innflytjendaráð.

Fjölmenningarsetur, eftir því sem næst verður komist, er sett á laggirnar með útlendingalögunum 2016. Það hefur með höndum verkefni, upplýsingamiðlun og ráðgjöf, og ég ætla bara að skjóta því að svona innan sviga að ég átta mig ekki á heitinu á þessari ágætu stofnun sem ég hef ekkert við að athuga, ég verð að viðurkenna að mér er ekki ljós merking hugtaksins eða orðsins fjölmenning, ég las Íslenska menningu eftir Sigurð Nordal og hef marglesið hana en ég veit bara ekki hvað orðið fjölmenning merkir.

Auðvitað veit hv. þingmaður, hafi hún hlustað á ræðu mína, að ég svaraði lokaspurningu hennar. Ég gerði það alveg skýrt með vísan til stöðu okkar í veröldinni og skuldbindinga okkar gagnvart umheiminum, líka móralskra skuldbindinga, og við eigum auðvitað að leggja okkar af mörkum. En við höfum eins og aðrir takmarkað fé til þess og það var það sem ég nefndi í ræðu minni, m.a. með vísan til stefnumörkunar í Danmörku en ég vísaði líka til Svíþjóðar og Noregs og reyndar til Evrópu og til þátttöku okkar í þróunarsamvinnu og þá sérstaklega í gegnum Alþjóðabankann og stofnanir á hans vegum.