151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[15:11]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins hefur lagt hér fram á Alþingi frumvarp um málefni innflytjenda. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi á síðasta ári en hlaut ekki afgreiðslu. Ljóst er að ríkisstjórnin ætlar að koma þessu máli í gegnum þingið fyrir kosningar. Frumvarpið felur í sér breytt hlutverk Fjölmenningarseturs og er ætlunin að gera stofnunina að tengilið milli flóttafólks, sveitarfélaga og Vinnumálastofnunar. Það á að auka yfirsýn yfir málaflokkinn og að sama skapi á ákvarðanataka um þjónustu að verða skilvirkari. Ráðgjafarhlutverk stofnunarinnar fær auk þess meira vægi gagnvart sveitarfélögunum. Ég geri ekki athugasemdir við þetta breytta hlutverk Fjölmenningarseturs. Það gerir ágæta hluti, en það er þó ekki stóra málið hvað þetta frumvarp varðar þó svo að reynt sé að færa það í þann búning að það snúist fyrst og fremst um að veita upplýsingar. En svo er nú ekki.

Í greinargerð með frumvarpinu er setning sem vekur athygli. Þar segir að með samræmdu móttökukerfi sé unnið að því að tryggja flóttafólki jafna þjónustu óháð því hvernig það kemur til landsins. Hér þarf að staldra við og skoða hvað þetta þýðir í reynd. Aðalmarkmið frumvarpsins er ekki breytt Fjölmenningarsetur eða breytt hlutverk þess. Aðalmarkmið frumvarpsins er að jafna stöðu flóttafólks, hvort sem um er að ræða flóttafólk sem kemur í hópum í boði stjórnvalda, svokallaða kvótaflóttamenn, flóttafólk sem kemur til landsins á eigin vegum, hælisleitendur, eða í gegnum fjölskyldusameiningu flóttafólks.

Hæstv. ráðherra hefur upplýst að með þessu frumvarpi verði enginn greinarmunur gerður á kvótaflóttamönnum og hælisleitendum sem fá dvalarleyfi þegar kemur að þjónustu. Svaraði ráðherra því í andsvari þegar málið var flutt fyrst að þessir hópar myndu fá sömu þjónustu. Verði frumvarpið að lögum munu sem sagt hælisleitendur með dvalarleyfi og kvótaflóttamenn fá sömu þjónustu. Rétt er að það komi hér skýrt fram að hér er um grundvallarbreytingu að ræða, grundvallarbreytingu sem ekki fer hátt vegna þess að hún er sett í þann búning að Fjölmenningarsetur sé aðalatriðið, að verið sé að útvíkka hlutverk þess og þjónustustig, m.a. við sveitarfélögin. Það sem er hins vegar ekkert fjallað um í frumvarpinu er að þessi grundvallarbreyting mun hafa verulega aukin fjárútlát í för með sér fyrir ríkissjóð. Það mun ekki gerast á morgun verði frumvarpið samþykkt í dag en innan fárra mánaða frá gildistöku þess verði það að lögum.

Með þessari breytingu er verið að senda út þau skilaboð að hér sé verið að auka þjónustu við hælisleitendur á sama tíma og nágrannaríkin, eins og t.d. Danmörk og nú síðast Svíþjóð, stefna markvisst að því að til þessara landa komi færri hælisleitendur. En ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna er hins vegar að fara í þveröfuga átt við Svíþjóð og Danmörku, sem hafa mikla reynslu af þessum málaflokki og mun lengri og meiri reynslu en við. Bætt þjónusta við hælisleitendur mun þýða fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd. Það þarf ekki mikil vísindi til að sjá það, fólk leitar í bestu þjónustuna og hún spyrst fljótt út. Ég tek það fram hér, herra forseti, að nú þegar veitir Ísland þessum hópi mjög góða þjónustu, eina þá bestu í Evrópu. Það kemur m.a. fram hjá dómsmálaráðuneytinu þannig að það er ekki svo að við veitum hælisleitendum lélega þjónustu, síður en svo.

Í frumvarpinu er þess getið að þetta sé tilraunaverkefni til eins árs, en það er hins vegar mjög líklegt að það verði framlengt. Það sem verður hins vegar deginum ljósara er að þetta mun senda skýr skilaboð um þjónustuna sem er í boði á Íslandi fyrir hælisleitendur. Á síðasta ári tók Ísland á móti 85 kvótaflóttamönnum en 631 hælisleitandi fékk dvalarleyfi. Meðalkostnaður vegna móttöku kvótaflóttafólks fyrir einhleypa er um 6 millj. kr. á ári og, herra forseti, ég verð að segja að það er sérkennilegt að yfirfæra réttindi kvótaflóttafólks yfir á hælisleitendur. Þetta er tvennt ólíkt, fólk sem við samþykkjum að taka við í samráði við Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna og sjá um, þ.e. kvótaflóttamenn, og síðan fólk sem kemur hingað á eigin vegum og ekki einu sinni ljóst hvort það uppfylli alþjóðleg skilyrði þess að vera flóttamenn. Engu að síður er frumvarpið á þann veg að veita eigi því fólki nákvæmlega sömu þjónustu.

Herra forseti. Ég er talsmaður þess að við veljum sjálf þá flóttamenn sem hingað koma. Það er mín persónulega skoðun, að það eigi að vera megininntak í okkar stefnu þegar kemur að móttöku flóttamanna, að við veljum sjálf þá flóttamenn sem hingað koma. Danir hafa sett sér það markmið að þangað komi enginn hælisleitandi í framtíðinni. Þeir vinna markvisst að breytingum á regluverki sínu í þá veruna en Danir munu engu að síður halda áfram að taka við flóttamönnum. Hvers vegna eigum við að velja þá sjálf sem hingað koma? Jú, ég skal svara því. Það er mín skoðun að við eigum að velja þá sem hafa mesta þörf fyrir það, konur og börn og fjölskyldur sem búa í stríðshrjáðu umhverfi. Við eigum að velja þá sem hingað koma vegna þess að hælisleitendakerfið eins og það er í dag er misnotað af einstaklingum sem þurfa ekki á því að halda. Hingað koma fjölmargir í leit að betri lífskjörum og í leit að atvinnu. Það er ekki lögmæt ástæða fyrir því að fá hér hæli og heldur ekki í nágrannalöndunum. Þessir aðilar segja ekki frá því þegar þeir koma til landsins. Það er alþekkt. Þeir fara síðan inn í kerfi og það tekur marga mánuði að fá það staðfest að þeir eiga ekki rétt á hæli. Þessa mánuði þarf ríkissjóður að borga húsnæði, dagpeninga, heilbrigðisþjónustu o.s.frv. Þetta kostar peninga sem væri hægt að nýta fyrir þá sem hafa raunverulega þörf fyrir það.

Það getur enginn mótmælt því að hælisleitendakerfið sé misnotað. Það er misnotað í öllum löndum. Þeir sem hafa efasemdir um að það sé misnotað hér á landi ættu að funda með lögreglunni á Keflavíkurflugvelli. Við ræðum oft hér í þingsal um það sem betur mætti fara í ríkisrekstri. Við ræðum hvað betur mætti fara í heilbrigðiskerfinu sem kostar mikla peninga. En þegar minnst er á að það sé margt sem betur mætti fara í hælisleitendakerfinu þá hlaupa sumir þingmenn upp til handa og fóta og vilja alls ekki breyta neinu, alls ekki herða reglurnar, alls ekki draga úr misnotkun á kerfinu, alls ekki reyna að spara fjármuni ríkisins, taka bara á móti sem flestum, skiptir engu máli hvort þeir eiga rétt á hæli hér eða ekki, skiptir engu máli hvort þeir eru að misnota kerfið eða ekki.

En það eru ekki bara sumir þingmenn sem hlaupa upp til handa og fóta þegar hælisleitendakerfið er gagnrýnt. Sumir fjölmiðlar verða að sama skapi æfir yfir því, svo ekki sé minnst á samfélagsmiðlana. Ég hef persónulega hitt einstakling sem kom hingað á fölskum forsendum sem hælisleitandi og dvaldi hér í tæpt ár á kostnað ríkisins. Viðkomandi býr í Georgíu, ég hitti hann á veitingastað í höfuðborginni Tíblisi á sínum tíma þar sem hann þjónaði til borðs. Þegar hann spurði mig hvaðan ég væri og ég svaraði honum því, þá sagðist hann hafa komið til Íslands, ekki sem ferðamaður heldur sem hælisleitandi. Ég spurði þá hvort hann hefði verið ofsóttur í Georgíu þar sem ekki ríkir stríðsástand. Nei, hann var ekki ofsóttur, sagði hann, hann langaði bara að koma til Íslands og þekkti nokkra Georgíumenn sem hefðu gert þetta.

Hælisleitendakerfið hér á Íslandi er mannanna verk. Þeir sem ekki vilja laga það til að koma í veg fyrir að það sé misnotað verða að svara því hvort það sé í lagi að svíkja fé úr ríkissjóði. Það á að herða þessar reglur, herra forseti, til þess að koma í veg fyrir misnotkun. Það er lögbrot að misnota almannatryggingakerfið, að þiggja bætur sem maður á ekki rétt á. Hér er hins vegar allt of lítið gert til að koma í veg fyrir að hælisleitendakerfið sé misnotað. Og á hverjum bitnar það? Jú, á þeim sem virkilega þurfa á aðstoðinni að halda. Verið er að koma í veg fyrir að hægt sé að hjálpa sem flestum. Miðflokkurinn styður það að við hjálpum þeim sem búa við ömurlegar aðstæður á stríðshrjáðum svæðum en við viljum nýta þá takmörkuðu fjármuni sem við höfum sem best. Það gerum við ekki með því að halda uppi fólki í ár, og stundum í allt að tvö ár, sem á síðan ekki rétt á því að fá hér hæli. Við getum hjálpað sem flestum með samstarfi við alþjóðastofnanir sem starfa á þessu sviði. Að senda peninga til þessara stofnana mun gagnast mun fleirum. Fyrir hvern einn hælisleitanda sem hingað kemur er hægt að hjálpa allt að 12 manns sem eru í þjónustu alþjóðastofnana. Þessar tölur koma frá Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna.

Skoðum aðeins þá þjónustu sem kvótaflóttamenn fá sem hingað koma og stjórnvöld velja sérstaklega. Ég er ekki að gagnrýna þessa þjónustu, bara að upplýsa hver hún er. Framfærsla er greidd í eitt ár, desemberuppbót og barnabætur í eitt ár, greitt er fyrir leikskóla, 100.000 kr. á mánuði í 11 mánuði, skólamáltíðir í níu mánuði, frístundaheimili í níu mánuði, styrkur í skólabyrjun og eingreiðsla fyrir íþróttir og tómstundir, meðlag í tvo mánuði, framhaldsskóli í tvær annir, heilbrigðisþjónusta og lyf í sex mánuði, tannlæknaþjónusta fyrir 115.000 kr., sálfræðiþjónusta fyrir 264.000 á einstakling og önnur sálfræðileg ráðgjöf í 12 mánuði. Stuðningur heim er greiddur, 100.000 kr. á fjölskyldu, handleiðsla starfsmanna er greidd, 390.000 kr. á fjölskyldu, túlkaþjónusta 270.000 kr. á fjölskyldu, húsaleiga í tvo mánuði og húsnæðisbætur sveitarfélaga í 12 mánuði, gleraugu 30.000 kr., sími og internet í einn mánuð, strætókort. Einnig gera stjórnvöld samning við Rauða krossinn um þjónustu, nemur kostnaðurinn um 600.000 kr. á einstakling og er það viðbót við það sem að ofan greinir. Þetta er sú þjónusta sem við veitum kvótaflóttamönnum enda leitumst við við að taka vel á móti þeim og við veljum þá sjálf. Á síðasta ári voru þetta 85 einstaklingar.

Verði frumvarp þetta að lögum munu hælisleitendur sem hingað koma fá nákvæmlega sömu þjónustu. Eins og ég nefndi hér fyrr tók Ísland á móti 85 kvótaflóttamönnum en 631 hælisleitenda var veitt dvalarleyfi. Að halda því síðan fram hér að þetta frumvarp kosti aðeins 24 milljónir er algjörlega út úr korti, herra forseti. Ég segi það hér aftur: Íslendingar hafa tekið vel á móti kvótaflóttamönnum. Þeir koma iðulega frá stríðshrjáðum löndum. Við eigum áfram að sinna þessum hópi vel og aðstoða við aðlögun þeirra að íslensku samfélagi. Með því að veita hælisleitendum og kvótaflóttamönnum sömu þjónustu er einfaldlega gengið of langt. Skilaboðin berast hratt út í heim og viðbúið er að umsóknir um hæli á Íslandi munu margfaldast á skömmum tíma enda Ísland þekkt fyrir að veita eina bestu þjónustuna í málaflokknum.

Fyrir fáeinum árum komu um 6.000 hælisleitendur að landamærum Noregs frá Rússlandi á nokkrum vikum. Eru stjórnvöld hér á landi viðbúin því að fá slíkan fjölda umsókna á fáeinum vikum? Noregur herti reglurnar í kjölfar þessa máls. Dómsmálaráðuneytið hefur gefið það út að fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi sé orðinn einn sá mesti í Evrópu og langmestur á Norðurlöndum miðað við höfðatölu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft þennan málaflokk á sinni könnu um árabil og er greinilega algjörlega ófær um að leysa þennan vanda. Hann skortir nauðsynlega festu og hefur ekki reynst fær um að taka á þessum vanda. Stjórnsýslan ræður ekki við að afgreiða umsóknir innan viðunandi frests og beinn kostnaður við framfærslu hælisleitenda eykst hratt. Á síðasta ári kostaði það skattgreiðendur 4,5 milljarða og fer ört hækkandi og það ríkir þögn um óbeinan kostnað.

Herra forseti. Það er brýnt að einfalda og hraða málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd svo auka megi skilvirkni og stytta málsmeðferðartímann og draga úr óþarfakostnaði fyrir ríkissjóð. Það er ómældur kostnaður sem fer í lögfræðinga, húsaleigu, öryggisgæslu og fleira á meðan fólk bíður eftir niðurstöðu, fólk sem í mörgum tilfellum á síðan ekki rétt á því að fá hér dvalarleyfi vegna þess að það kom hingað á röngum forsendum. Ég vil sjá að þessum peningum sé varið til þeirra sem eru í neyð í stríðshrjáðum löndum. Það er mín skoðun eftir að hafa komið í þó nokkrar flóttamannabúðir í Miðausturlöndum.

Dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp á Alþingi á síðasta ári um breytingu á lögum um útlendinga. Frumvarpinu var ætlað að gera stjórnvöldum kleift að afgreiða skjótt og örugglega umsóknir sem leiða ekki til veitingar alþjóðlegrar verndar. Frumvarpið náði ekki fram að ganga vegna ósættis í ríkisstjórninni. Okkur ber að aðstoða nauðstadda eftir föngum að teknu tilliti til fámennis þjóðarinnar og koma ber í veg fyrir að móttökukerfi hælisleitenda sé misnotað með röngum upplýsingum og tilhæfulausum umsóknum. Það er verkefni sem allir þingmenn eiga að láta sig varða. Ísland hefur ekki farið að fordæmi Dana og Norðmanna og auglýst strangt regluverk í útlendingamálum sem m.a. er sett á samfélagsmiðlana í Noregi og Danmörku vegna þess að á Íslandi eru þessi mál einfaldlega í ólestri vegna stefnuleysis, ófullnægjandi stjórnsýslu og lagaþrætna á kostnað skattgreiðenda. Árið 2004 var 48 tíma reglan við afgreiðslu umsókna tekin upp í Noregi til að draga úr tilefnislausum umsóknum og gera kerfið skilvirkara. Þar var einmitt birt auglýsing sem hljóðar svo: Ertu að yfirgefa landið þitt í leit að betri lífskjörum? Ertu að yfirgefa landið þitt í leit að vinnu? Þetta eru ekki löglegar ástæður fyrir því að fá alþjóðlega vernd í Noregi, þér verður vísað til baka. Þetta er texti úr auglýsingum sem norsk stjórnvöld birta á helstu netmiðlum. Auk þess er því komið á framfæri í auglýsingunni að reglur hafi verið hertar í Noregi. Danir hafa birt áþekkar auglýsingar.

Það er að verða stefnubreyting í útlendingamálum í Svíþjóð. Það eru stórar og miklar fréttir og þeir tala af mikilli reynslu í þessum málaflokki. Það er orðinn meiri hluti fyrir því í sænska þinginu að herða tungumálakröfurnar, takmarka aðflutning ættingja og gera það erfiðara að fá dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Þarna tala nú þingmenn á sænska þinginu sem þekkja þennan málaflokk mjög vel og hafa mikla reynslu af honum. Það hlýtur að vera eðlilegt, herra forseti, að við horfum til Norðurlandanna í þessum efnum, hver þeirra reynsla er. Verið er að herða þessar reglur í Noregi og Danmörku, eins og ég rakti í upphafi. Á sama tíma erum við Íslendingar að fara í þveröfuga átt. Við erum að auglýsa með breytingum á þessu frumvarpi að hér sé verið að bæta þessa þjónustu og það þýðir náttúrlega að hingað koma fleiri. En þessi þjónusta er ekkert slæm, hún er ein sú besta sem verið er að veita í Evrópu. Það hefur algjörlega gleymst í þessari umræðu. Það er alveg greinilegt að þeir sem vinna þetta frumvarp hafa ekkert hugsað út í það. Ég segi fyrir mitt leyti að það á að horfa til reynslu Norðurlandanna hvað þetta varðar, það er það skynsamlegasta í stöðunni, og ekki fara í þveröfuga átt eins og við erum að gera hér.

Herra forseti. Þetta frumvarp félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins er haldið verulegum ágöllum. Það getur einungis um kostnaðarauka fyrir tvö stöðugildi hjá Fjölmenningarsetri upp á 24 millj. kr. árlega þegar kostnaðaraukinn getur í reynd orðið milljarðar króna og við myndum missa málaflokkinn úr böndunum. Það verður að segjast eins og er að í þessari umræðu er fjarvera þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins eftirtektarverð. Ég læt það vera mín lokaorð í þessari umræðu.