151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[15:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þessi samanburður, að ræða um fæðingar á Íslandi og hælisleitendur, er bara algjörlega út í hött. Ég fagna hverju barni sem fæðist á Íslandi og hefði svo sannarlega viljað að þau væru fleiri. Hv. þingmaður spurði mig að því hvaðan ég hefði fengið þessa tölu, 6 milljónir, sem einstaklingur í hópi kvótaflóttamanna kostar nú orðið. Þessar tölur koma frá upplýsingaþjónustu Alþingis og þeir kostnaðarliðir sem ég rakti í ræðu minni eru til komnir vegna þeirrar þjónustu sem stendur kvótaflóttamönnum til boða. Þessar upplýsingar koma allar frá upplýsingaþjónustu Alþingis. Hv. þingmaður kom inn á það hvernig kerfið væri, þ.e. að halda fólki úti. Kerfið hér á Íslandi er bara þannig að það er meingallað, það geta allir komið hér inn og borið því við að þeir hafi ýmsar ástæður fyrir því að vera teknir inn í þessa þjónustu sem við þekkjum. Þeir þurfa síðan að bíða í marga mánuði eftir því að fá niðurstöðu sem er í mörgum tilfellum sú að þeir eiga ekki rétt á hæli, ég rakti það í ræðu minni, og það kostar verulegar upphæðir. Þetta er nokkuð sem verður að koma í veg fyrir hér á landi. Það verður að vera hægt að vísa þessu fólki frá strax á flugvellinum þegar það á ekki rétt á því að koma hingað til lands, eins og ég nefndi sérstaklega í ræðu minni. Ég hef hitt einstakling sem hefur sagt mér að hann hafi svindlað á þessu kerfi hér á Íslandi og fjölmargir fleiri landar hans. Ég taldi rétt að geta þess hér vegna þess að þannig er það í mörgum tilvikum. Við þurfum að herða þessar reglur vegna þess að við getum nýtt þessa fjármuni mun betur. Og ég er búinn að segja það hér, hv. þingmaður, að ég vil sjá þessa fjármuni nýtta í þágu þeirra sem eru í raunverulegri þörf, ekki bara í lagaþrætur hér á Íslandi, húsaleigu og alls konar kostnaðarliði meðan fólk er að bíða eftir því að fá nei vegna þess að það kemur hingað á röngum forsendum. Það er eitthvað sem við verðum bara að stöðva og ég held að hv. þingmaður hljóti að vera sammála mér í því að það þarf að koma í veg fyrir slíka misnotkun á þessu kerfi.