151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:17]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að leiðrétta mig. Það voru 60% sem voru óánægð, 25% ánægð og það var einhver hópur þarna á milli líka sem var næstum því ánægður og næstum því óánægður, sem spilar þarna inn í. Ég vil samt taka undir orð hv. þingmanns að því leyti að það er einmitt það sem við þurfum að gera, þ.e. að sjá til þess að hlutirnir séu í lagi áður en við förum að setja enn frekari kvaðir á þær stofnanir sem eru til staðar. (Gripið fram í.) — Nei, en ég skildi hv. þingmann þannig að við þyrftum að bregðast við, hafa þessa hluti í lagi þannig að við gætum staðið okkur í því að veita þessa þjónustu. Ég vona að ég hafi ekki misskilið neitt og valdi ekki misskilningi með því hvernig ég set þetta fram.

Það er ekki nægjanlega vel staðið að því núna hvernig við þjónustum og komum til móts við innflytjendur á Íslandi. Ég hef lagt fram mál sem fjallar um samfélagstúlkun. Ég hef líka lagt fram mál sem fjallar um dómtúlkum. Það er gert til þess að reyna að undirbyggja þá þjónustu sem við bjóðum upp á en er alls ekki fullnægjandi. Eitt af því gæti verið að við myndum reyna að hlusta af meiri athygli á raddir innflytjenda sem kalla eftir auknum gæðum. Þeir nefna sérstaklega íslenskukennslu, sem ég held að skipti öllu máli til þess að við getum gert sem best.