151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:22]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á að þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir ræðuna. Eins og hv. þm. Birgir Þórarinsson sagði er alltaf áhugavert að hlusta á hv. þingmann. Maður er að reyna að átta sig á því raunverulega hvert hv. þingmaður er að fara. Hann fer um víðan völl, kemur mjög víða við. Ég hef þetta kannski á því að spyrja hv. þingmann: Hvað álítur hv. þingmaður að hægt sé að sjá af miklu fé í þennan málaflokk miðað við þær miklu þarfir sem hér eru uppi? Það er ákall hvarvetna úr samfélaginu eftir því að það sé meira gert og betur. Hvað sér hv. þingmaður fyrir sér í því efni? Og hvað álítur hv. þingmaður að við getum tekið á móti mörgum hælisleitendum á hverju ári?

Ég vil nefna að hv. þingmaður notaði orðið innflytjendur. Ég verð að segja að mér þykir það ekki nákvæm orðanotkun hér. Hér kemur fólk til að mynda frá Evrópska efnahagssvæðinu sem nýtur þeirra réttinda að það getur flutt hingað búferlum og starfað hér. Auðvitað má ekki rugla þessum hópum saman, hv. þingmaður. Ég hvet hann til þess að vera svolítið nákvæmari þegar hann fjallar um þessi mál. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, og kannski er það svo að hv. þingmaður er í raun og veru ekki að leita eftir neinum svörum frá okkur, t.d. þegar hann ávarpar okkur flokksfélagana í Miðflokknum sérstaklega, ég þakka honum fyrir það, en mér sýnist að hann viti öll svörin. Í vissum skilningi er hv. þingmaður eins konar handhafi sannleikans.