151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er sannarlega óhætt að taka undir það að útlendingar eru langsamlega flestir, nánast allir, gott fólk eins og fólk er almennt. En við þekkjum þá umræðu sem hv. þingmaður kemur inn á, þessar tilraunir til að nýta eitthvert yfirbragð mála, jafnvel bara heiti þeirra eða yfirlýst markmið, til að knýja í gegn stuðning og ráðast svo á alla sem kunna að gagnrýna hið raunverulega innihald. Þetta er hreinlega mjög til trafala fyrir lýðræðið nú til dags, ekki hvað síst á Vesturlöndum og m.a. hér. Annað sem bætist þar við er hvernig þetta kerfi vinnur. Í þessu máli er okkur t.d. sagt að það sé allt of snemmt að tala um heildarmyndina. Þótt því sé lýst í greinargerðinni hvað til standi þá má ekki tala um heildarmyndina, ekki strax, það sé bara fyrir einhverja aðra að ræða það. En svo þekkjum við hvernig kerfið virkar, er það ekki hv. þingmaður? Og nú spyr ég þig: Höfum við ekki séð þetta svo oft áður? Okkur er ítrekað sagt að ræða mál ekki strax, það sé ekki komið að því, og þegar kemur að því að maður heldur að loksins sé hægt að ræða það er manni sagt: Nei, það er of seint að tala um þetta, þú hefðir þurft að tala um þetta á sínum tíma.