151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:34]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir ræðuna og fyrir leggja spilin á borðið varðandi sína eigin afstöðu í þessu máli. Þá erum við að tala um hælisleitendakerfið og í víðara samhengi eins og þetta frumvarp gefur náttúrlega tilefni til að ræða. Ég leyfi mér, með leyfi forseta, að vitna til ræðu hæstv. dómsmálaráðherra í umræðum um fjármálaáætlun 25. mars síðastliðinn. Þá er hún spurð af hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni út í fjármuni sem fara í þennan málaflokk sem við erum að ræða nú, hælisleitendakerfið og það allt saman. Með leyfi forseta, segir hæstv. ráðherra:

„Varðandi fjármunina sem fara í þennan málaflokk þá er þetta svolítið ófyrirsjáanlegt og erfitt að gera áætlanir fram í tímann um það hve margir leita hér eftir alþjóðlegri vernd. Það hefur verið tekin ákvörðun um að fjármagna samkvæmt raunútgjöldum í stað þess að ofáætla í fjárlögum …“

Þetta þýðir að það eru bara sóttir fjármunir, sótt fé eftir því sem þörf krefur. Þetta þýðir á mæltu máli opinn krani á ríkissjóð. Þetta er ein af helstu hátignum Sjálfstæðisflokksins sem hér talar. Hver er stefna flokksins í þessum efnum?

Í seinna andsvari mun ég fjalla um að í sömu ræðu lýsti hæstv. dómsmálaráðherra ekki bara opnum krana á ríkissjóð heldur galopnum landamærum og hefði hver Pírati eða Samfylkingarmaður og svo fjölmargir aðrir hérna mátt vera fullsæmdir af því. (Forseti hringir.) Ég spyr: Hver er munurinn á Sjálfstæðisflokknum í þessum efnum og þeim ágætu flokkum sem ég nefndi?