151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:40]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get sagt við hv. þingmann að kjósendur fá mjög mikið fyrir að greiða Sjálfstæðisflokknum atkvæði almennt. En ég skal alveg viðurkenna það að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki náð að taka á þessu vandamáli og hefur ekki haft kraft eða kjark eða þor til þess. Hann hefur heldur ekki haft meiri hluta til þess, hefur ekki haft styrk til þess. (Gripið fram í.) Mig grunar það, já, það er mín tilfinning. En það er mikill vilji til þess að taka á þessum vanda og gera þetta með einhverjum sóma, ekki gera þetta stjórnlaust, óviðráðanlegt og hafa sjálfvirkan krana af því að við getum ekki boðið fólki upp á það til lengdar. Það er bara veruleikinn og ég horfist í augu við veruleikann. Alveg sama hvað ég vil vera góður. Mér finnst ég vera ofsalega góður en það finnst ekki öllum. Ég hef sagt það áður að ég held að íslenskir stjórnmálamenn muni ekki taka á þessu fyrr en allt er komið í óefni. Stefnan hefur verið sú í íslenskum stjórnmálum í þessum málaflokki að hafa enga stefnu og vona það besta. Það er niðurstaðan. Við höfum enga stefnu en bara vonum það besta og vonum að það verði ekki allt yfirfullt, vonum frekar að beiðnum um vernd fækki og vonum að kerfið ráði við þetta o.s.frv. Það eru íslensk stjórnmál í hnotskurn, ekki bara í þessum málaflokki.