151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[19:28]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum hér eitt mikilvægasta mál sem vestræn samfélög takast á við nú á tímum, málefni flóttafólks. Straumur flóttafólks hefur aukist síðustu ár og áratugi og sífellt fleiri manneskjur leita að betra lífi og leita þá til auðugri þjóða eins og Vesturlanda og þeirra þjóða sem geta boðið upp á betra líf, sem er í hæsta máta hinn eðlilegasti hlutur. Kallað hefur verið eftir því að þessar þjóðir taki á móti fólki, bjóði fólk velkomið. Styrinn stendur um það að innflytjendur setja mark sitt á þær þjóðir sem fyrir eru og setja mark sitt á menningu og umhverfi sem er bara hið besta mál og oft ekki vanþörf á. Við höfum hér á Íslandi verið svo heppin að fá hingað mikinn fjölda fólks frá hinum ýmsu löndum og svæðum úr heiminum og það hefur sett mark sitt á þetta þjóðfélag sem var mjög einsleitt fyrir örfáum árum eða áratugum. Ég held að það séu ekki nema kannski 40–50 ár síðan það þótti frétt ef sást til manns eða konu sem var eitthvað öðruvísi útlítandi en þessir venjulegu gömlu Íslendingar sem hér voru.

Auðvitað finnst fólki þetta vera mikil breyting og auðvitað eru til skuggahliðar á þessu. En nú er svo komið að flóttamannastraumurinn er orðinn það mikill til vestrænna samfélaga að sumum finnst nóg um. Meðan samfélagið getur tekið á móti þessu fólki og aðlagað það og menningin verður ekki fyrir svo miklum skakkaföllum að hún hverfur eða verður undir þá held ég að það sé að mörgu leyti siðferðisleg skylda mannkynsins að bjóða fólk velkomið þangað sem það getur haft það betra og skárra en það hafði það heima hjá sér.

Það eru auðvitað mjög miklar og margar siðferðilegar spurningar sem við stöndum frammi fyrir í dag. En það ber svo við á Íslandi og kannski víðar að fólk er afskaplega feimið að ræða þetta, sérstaklega opinskátt. Margir sem telja sig vera betur að sannleikanum komnir vilja ekki ræða þetta og vilja láta líta út fyrir að samfélag eins og okkar, sem telur 350.000 manns, geti tekið óheft við öllu því fólki sem hingað vill koma. Í heiminum búa milljarðar manna og megnið af þeim er fólk sem hefur það miklu verra en við höfum nokkurn tímann þekkt. Samfélög eins og á Íslandi geta auðvitað ekki tekið við öllum þeim sem hugsanlega myndu vilja koma hingað ef þau hefðu tök á því.

Fólk leggur mikið á sig til þess að komast í betra líf og það er líka eðlilegt en ég vil taka undir með hv. þm. Brynjari Níelssyni: Ég fagna þessari umræðu, og gott og nauðsynlegt að hún eigi sér stað og að hún fari fram á eins fordómalausan hátt og unnt er. Ég held reyndar að það sé, eins og einhver nefndi áðan, kannski borin von. En við verðum þó að ræða málið. Við verðum að sýna tilburði til að gera það.

Stefnan í innflytjendamálum á Íslandi, og þá um leið móttaka hælisleitenda sem er kannski aðalumræðuefnið hér, er orðin að úrlausnarefni sem enginn ábyrgur stjórnmálamaður eða stjórnmálaflokkur getur látið fram hjá sér fara. Umræðan hér á landi, herra forseti, hefur hins vegar verið afskaplega rýr, svo ekki sé meira sagt. Stjórnmálamenn hafa nálgast málaflokkinn af mikilli feimni, eins og þeir séu staddir í glervörubúð, enda margt brothætt í málaflokknum. Við erum auðvitað að ræða um fólk. Við erum að ræða um manneskjur, við erum að ræða um neyð, fátækt, eymd, fólk sem upplifir stríð og hörmungar. Eðlilega er þetta því mjög viðkvæmur málaflokkur en við verðum að taka umræðuna.

Mér finnst að meginstefið í umræðunni ætti að vera að við eigum auðvitað að bjóða alla velkomna sem við getum tekið á móti og sinna þeim vel. Eitt af því er að fólk komi hingað til lands og aðlagist íslenskri menningu. Ég tel að mjög mikill misbrestur hafi verið á því hér í móttöku flóttamanna og hælisleitenda og annarra sem hingað koma, innflytjenda. Við höfum ekki sinnt því nægilega vel. Við erum að feta okkur áfram þessa slóð en við höfum ekki sinnt þessu vel. Ég nefni sem dæmi íslenskukennslu. Við erum því miður, herra forseti, örlítið að tapa því niður að hér sé töluð íslenska innan lands. Við höfum verið að tapa þar og það er alls ekki nógu gott og það má alls ekki halda svona áfram.

Þingmenn og fólk í flokkum sem sýnast ekki hafa neina stefnu í þessum málaflokki hafa einungis gert hróp að þeim sem taka þátt í umræðunni. Það virðist þó sem flokkur Pírata hafi helst þá stefnu að taka eigi á móti öllum sem hingað vilja koma. Það er þó kannski stefna, herra forseti, í sjálfu sér og ekkert við því að segja. Ég er ekki sammála því. Ég tel að við eigum að taka á móti fólki sem við getum tekið á móti og höfum burði til að sinna, burði til að láta aðlagast samfélaginu, taka á móti þeim sem hingað koma og vilja vinna og starfa með okkur í samfélaginu. Það er mikið af slíku fólki nú þegar hér á landi, tugir þúsunda sem hingað koma og starfa og taka þátt í okkar samfélagi og er það vel. En að hafa þetta fjárhagslega stjórnlaust, eins og hefur komið fram í þessari umræðu, gengur ekki upp að mínu viti.

Áðurnefndur hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins viðurkenndi í ræðu áðan að hér væri engin stefna í þessum málaflokki og að menn gerðu ekki betur en að vona það besta, vona að kerfið réði við strauminn sem hingað kæmi og að hingað kæmu nú ekki of margir, þannig að kerfið myndi ráða við það. Það er auðvitað algerlega óboðlegt, herra forseti, að við séum hér með þannig stefnu í þessum málaflokki að við vonum að eitthvað muni ekki gerast og kerfið sé ekki tilbúið til að taka á móti, og síðan þegar straumurinn kemur fyllist allar leiðslur og kerfið springi. Það er auðvitað algerlega óboðlegt, eins og við höfum horft upp á mörg undanfarin ár. Það er óboðlegt. Það er ekki bara óboðlegt út af fjárhagslegum sjónarmiðum heldur einnig málefnalegum. Við verðum að reyna, svona einu sinni, herra forseti, að læra af nágrannalöndunum áður en allt er komið í óefni. Stefnan núna er hins vegar að gera ekki neitt og vona það besta.

Við erum, herra forseti, á góðri leið með að endurtaka mistök annarra þjóða, stefnu mistaka sem þau eru nú hvert af öðru að falla frá og snúa af þeirri braut sem við, litla Ísland, erum að byrja að feta. Er ekki rétt, herra forseti, að kallað sé eftir stefnu í þessum málaflokki? Hver er hún? Hver er stefna stjórnmálaflokkanna í þessum málaflokki? Hver er hún? Hver er stefna ríkisstjórnarinnar?

Þetta frumvarp er ágætisdæmi um stefnuna. Hér á að veita hælisleitendum, ef þeir fá dvalarleyfi, sama rétt og flóttafólki, svokölluðu kvótaflóttafólki, sem við fáum hingað til lands í gegnum samning við Sameinuðu þjóðirnar og erum að sinna, held ég, ágætlega. Veita á hælisleitendum sem fá dvalarleyfi hér á landi sama rétt. Eru menn sáttir við það? Nei, ég er ekki sáttur við það. Vegna hvers? Vegna þess að ég held að það séu skilaboð út í hinn stóra heim sem munu ekki fara fram hjá þeim glæpaforingjum sem starfa á þessum vettvangi og lifa á því að fá fólk á flótta og fólk í neyð, fátækt fólk, fólk sem er að leita sér að betra lífi, til að greiða aleiguna, til að beina því til landa þar sem það getur hugsanlega fengið bestu meðferðina. Þetta eru þúsundir, tugþúsundir, hundruð þúsunda og milljónir fólks sem er að leita að betra lífi. Skilaboð með slíku frumvarpi og fleiri aðgerðum stjórnvalda út í heiminn verða einmitt þau að það sé vænlegt, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, að koma til Íslands, stjórnvöld muni taka vel á móti fólki og það muni komast þar á allra handa bætur, og við hér stöndum uppi með það að geta ekki valið úr því fólki sem virkilega er í neyð og kannski fólki sem er í enn þá meiri neyð. Konur og börn munu verða eftir vegna þess að þau hafa ekki fjármagn eða getu eða þrek til að ganga það einstigi sem fólk á flótta þarf að feta til að komast til Vesturlanda. Konur og börn, sem mestu hjálpina þurfa að sjálfsögðu, eiga erfiðara með að feta einstigið og komast á leiðarenda. Við höfum enga stjórn á því. Við tökum bara við því fólki sem hingað kemst.

Kerfið hér, sem er löngu sprungið, hv. þm. Brynjar Níelsson viðurkenndi það í ræðu áðan, erum við að opna enn meira. Við erum að senda skilaboð út í umheiminn um að það sé vænlegt að koma hingað. Stefnan er í raun engin, sagði hv. þingmaður. Við tökum bara við þessu þegar þeir koma. Kerfið utan um málaflokkinn er löngu sprungið. Það vildi bara svo til að hingað tóku að streyma hælisleitendur frá Evrópu. Á skammri stundu fylltust allar leiðslur sem fyrir voru og ástandið hefur eiginlega verið þannig síðan. Það er engin stefna rekin í þessum málaflokki á Íslandi.

Píratar vilja opna landið. Hver er stefna annarra flokka? Hver er stefna Viðreisnar? Óbreytt ástand? Vona það besta? Vona að ekki komi of margir? Vona að við ráðum við það? Hver er stefna Samfylkingarinnar? Hver er stefna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar? Óbreytt ástand? Vona að hingað taki ekki að streyma tugþúsundir hælisleitenda? Við fáum sexfalt fleiri hælisleitendur miðað við höfðatölu en mörg hinna Norðurlandanna, flesta miðað við þennan mælikvarða og þau öll. Af hverju skyldi það vera, herra forseti? Ég held að það liggi í augum uppi að hingað telja menn auðveldast að koma, auðveldast að komast inn í kerfið. Það er bara þannig. Önnur lönd eru að þétta kerfin sín og vilja stjórna sjálf hvaða fólki þau hjálpa og hvar þau hjálpa því.

Þetta kerfi kostar milljarða á hverju ári hér heima vegna tilhæfulausra umsókna um alþjóðlega vernd í mörgum tilvikum og við erum að borga stórfé fyrir það, milljarða. Ég held, herra forseti, að það hafi verið eitthvað um 4 milljarðar á síðasta ári. Við erum oft í þingsal að rífast um 100 eða 50 millj. kr. hingað og þangað, til SÁÁ eða eitthvert, við mótum stefnu í alls kyns málaflokkum, hvert peningar eigi að renna, hvert fjármagn eigi að renna, en í þessum málaflokki skiptir ekki nokkru máli hvað þetta mun kosta. Við vitum það ekki einu sinni sjálf og enginn hefur áhyggjur af því. Af hverju á þetta að vera svona?

Miðflokkurinn vill setja bönd á stjórnlaus útgjöld í þennan málaflokk vegna tilhæfulausra umsókna um alþjóðlega vernd. Stjórnvöld á Norðurlöndum telja mikinn háska steðja að samfélögum sínum og eru að snúa af þessari braut. Þau eru að þétta hælisleitendakerfið og vilja stjórna sínum málum meira sjálf en hingað til. Hvernig getum við, herra forseti, hjálpað sem flestum? Er það að borga hér á Íslandi uppihald þeirra sem eru með tilhæfulausar umsóknir, rándýrt uppihald sem gæti haldið uppi margfalt fleira fólki sem er í neyð í sínu heimalandi? Er eitthvert vit í þessu? Ég segi nei. Það er ekkert vit í þessu. Ef við viljum virkilega hjálpa sem flestum eigum við ekki að fara svona að. Þetta er röng nálgun og röng aðferð. Hver er ástæða þess að Danir eru að fara að taka upp aðra stefnu? Hver er ástæðan? Aðrir þingmenn hafa nú kannski komið inn á það hver ástæðan er nákvæmlega. Ég tala fyrir ábyrgð í fjármálum ríkisins. Við erum hér dögum saman að ræða fjármál ríkisins, aðhald, áætlanagerð, fyrirsjáanleika, markmið, tölulega mælikvarða. Þetta heyrum við daglega í þingsalnum en þegar kemur að þessum málaflokki þá yppta menn öxlum og vona það besta. Það er sorglegt. Við verðum að nýta fé betur til að hjálpa fleira fólki.

Ég ætla að koma í lokin að skipulagðri glæpastarfsemi, herra forseti. Ég lagði fram skýrslubeiðni fyrir nokkrum dögum, sem var samþykkt, um aðgerðir til að sporna við uppgangi skipulagðra glæpahópa. Ég vann í lögreglunni í áratugi og það vill þannig til að margir af þeim hælisleitendum sem hingað koma eru algjörlega nafnlausir og einkennalausir. Sannleikurinn er sá, herra forseti, og það alvarlega í málinu er það, að lögreglan hefur ekki hugmynd um hvaða fólk þetta er, hefur ekki hugmynd um hvaðan þetta fólk kemur, hefur ekki hugmynd um hvort þetta eru vígamenn frá stríðslöndum í Miðausturlöndum eða einhverjir aðrir. Þetta eru einkennalausir menn, skilríkjalausir og jafnvel fingrafaralausir, herra forseti.