151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[21:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að halda áfram með það sem ég ræddi um áðan, þ.e. hvað við getum lært af reynslu Norðurlandanna hvað varðar málefni innflytjenda og flóttamanna. Ég rakti svolítið þróunina í Svíþjóð, stefnan í Svíþjóð hefur eiginlega gert það að verkum að margir innflytjendur hafa ekki aðlagast sænsku þjóðfélagi og halda fast í venjur og siði sem þeir eru aldir upp við í sínum heimalöndum.

Samkvæmt skoðanakönnun sem fyrirtæki sem heitir Eurobarometer gerði árið 2018 voru 73% Svía þeirrar skoðunar að aðlögun flóttamanna hefði ekki tekist nægilega vel. Það er mjög hátt hlutfall miðað við þann mikla fjölda innflytjenda sem býr í Svíþjóð, innflytjendur eru orðnir 20% af íbúum Svíþjóðar. Í sömu könnun taldi 61% Svía að innflytjendur hefðu valdið fjölgun glæpa í landinu. Þá er spurt: Hvað getum við Íslendingar lært af þessari reynslu Svía? Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að við verðum að taka svona hluti alvarlega þegar við horfum til nágrannalandanna sem hafa miklu lengri og meiri reynslu í þessum málaflokki en við. Við erum með mjög litla reynslu í þessum málaflokki. Það eru örfá ár síðan hingað fór að koma sá fjöldi hælisleitenda sem við horfum á í dag. Þarna erum við að horfa til þróunar sem hefur varað áratugum saman í Svíþjóð.

Ef við skoðum hvað við getum lært af reynslu Svía þá kemur í fyrsta lagi fram að mikilvægt sé að vanda til stefnumótunar í þessum málaflokki svo forðast megi þann mikla pólitíska kostnað sem ýmis lönd á Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu hafa borið á síðustu árum. Hér ríkir í raun og veru engin stefna í þessum málaflokki, það verður að segjast eins og er.

Í öðru lagi þarf stefnan í þessum málaflokki að vera mótuð á grundvelli nákvæmrar skoðunar á líklegum áhrifum hennar á varðveislu menningararfs þjóðarinnar sem mótast hefur af sameiginlegri reynslu og sögu okkar um langan aldur, samhliða því sem við höfum einnig sótt innblástur í erlenda strauma. Stefnan þarf svolítið að mótast af því líka. Frjálst flæði fólks getur ekki verið markmið í sjálfu sér ef sérstaklega er stefnt að því að það leiði á endanum til þess að allar þjóðir verði steyptar í sama mót. Við viljum það að sjálfsögðu ekki, herra forseti. Ég held að flestir séu sammála um það.

Í þriðja lagi þarf að búa svo um hnútana að innflytjendur hafi hvata til skjótrar aðlögunar að menningu, siðum og venjum samfélags okkar. Það held ég líka að flestallir séu sammála um. Í því samhengi er ekki óeðlilegt að gera þá kröfu að stjórnvöld birti reglulega tölulegar upplýsingar um árangur slíkrar aðlögunar.

Í fjórða lagi sé ég fyrir mér í þessum efnum að það sé mikilvægt að stjórnvöld kanni reglulega viðhorf almennings til stefnumótunar í þessum málaflokki. Það er jú almenningur sem á að hafa síðasta orðið í þessum efnum.

Í fimmta lagi og í lokin er skynsamlegt að mannúðaraðstoð Íslendinga, sem ætluð er til að hjálpa flóttafólki í fjarlægum heimsálfum, miðist fyrst og fremst að því að gera þeim kleift að búa eins nálægt heimalandi sínu og menningarsvæði og mögulegt er. Það er það sem við höfum verið að tala um í Miðflokknum og höfum lagt áherslu á hvað þetta varðar, að geta hjálpað sem flestum sem næst sinni heimabyggð. (Forseti hringir.)

Þetta er svona það helsta sem ég vildi segja varðandi Svíþjóð og hvað við getum lært af reynslu Svía í þessum efnum.