151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[22:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara svo ég komi því að, ekki út af ræðu hv. þingmanns, en í ljósi umræðunnar, þá finnst mér mikilvægt að það komi fram að ógnin af hryðjuverkum stafar ekki síður af svokölluðum hvítum þjóðernissinnum og sjálfstæðissinnum. Það er ákveðin hefð fyrir hryðjuverkum í sjálfstæðisbaráttu víða í Evrópu en einhvern veginn höfum við minni áhyggjur af því, alla vega í umræðunni.

Það sem ég átta mig ekki alveg á í ljósi andstöðu hv. þingmanns við frumvarpið er hvernig við eigum þá að aðstoða fólk við að aðlagast íslensku samfélagi yfir höfuð. Ég finn ekki gull og græna skóga í þessu frumvarpi. Þetta snýst um að hafa leiðbeiningar og ráðgjöf til þess að fólk geti leitað þeirrar þjónustu sem það á þegar kost á, finna t.d. út úr því hvar það lærir íslensku eða hver getur stutt fólk í að læra íslensku. Það er fullt af fólki sem veit t.d. ekki að stéttarfélög styðja það og hjálpa til við að fjármagna þokkalega stóran hluta af því, 75% ef ég man rétt. Það eru atriði eins og hvernig á að leita að vinnu, við hverju býst atvinnuleitandi að maður sé með í ferilskránni og hvernig á að bera sig að í samskiptum við kerfið og þess háttar. Þetta eru verkefnin sem ætlunin er að inna af hendi með þessu frumvarpi. Ég fæ ekki séð hvernig þau verkefni eiga að virka sem einhver gulrót fyrir fólk sem er ekki einu sinni á landinu til að skoða málin svona djúpt, hvað þá einhverjir glæpamenn sem myndu ekkert veigra sér við að ljúga því einfaldlega að hér væru gull og grænir skógar, alveg sama hvað stendur í þessu frumvarpi.

Það er nefnilega þannig að við erum alltaf að samþykkja einhvern hóp af fólki sem kemur hingað sjálfur, hælisleitendur voru í fyrra 631 talsins. Þetta fólk gufar ekkert upp. Það hefur engan stað til að bíða í 3–30 ár eftir því að Sameinuðu þjóðirnar geti komið því á lista yfir lönd sem það getur unað við. (Forseti hringir.) Það er bara þarna. Við munum alltaf þurfa að samþykkja þennan hóp og þá hljótum við að vilja hjálpa honum að aðlagast. (Forseti hringir.) Við hljótum að vilja og geta kostað einhverju til þess og til þess er frumvarpið. Ég sé ekki hvernig þetta er gulrót.