151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[23:53]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Gamall íslenskur málsháttur er til sem hljómar þannig, með leyfi forseta: Eigi veldur sá er varar. Það eru orðin allnokkur málin sem við Miðflokksfólk höfum varað við á síðustu fjórum árum og ekki hefur verið hlustað á okkur en áhrifin hafa komið fram eftir að ógæfan hefur skollið yfir, ef svo má að orði komast. Við eigum örugglega eftir að sjá nokkur merki þess á næstu árum. Þetta segi ég vegna þess að okkur Íslendingum hættir til að grípa til alls konar ráðstafana sem aðrir hafa áður gefist upp á. Það hefur verið lenska hér, því miður, að u.þ.b. þegar menn í löndunum í kringum okkur hafa áttað sig á að eitthvað gengur ekki upp er eins og við manninn mælt að við tökum það upp hér, gerum það að okkar og göngum í sömu mistakasporin og aðrir hafa reynt að losa sig úr yfir langan tíma. Þannig er með þetta mál og við höfum bent á það að Norðurlandaþjóðirnar, sem nú eru að skipta um stefnu í hælisleitendamálum og innflytjendamálum, hafa á síðustu 35 árum verið að gera mistök með því í fyrsta lagi að hrúga fólki saman þannig að það aðlagast ekki viðkomandi þjóðfélögum. Eiginlega eru búin til sérþjóðfélög sem blandast t.d. ekki danska og sænska þjóðfélaginu.

Þetta er ekki eina dæmið, herra forseti. Undir lok síðasta árs og í byrjun þessa hefur Frakklandsforseti t.d. skorið upp herör og segir að franska stjórnin sé á einhverjum áratugum búin að missa sjónar á því sem þeim gekk sjálfsagt gott eitt til með þegar þeir tóku á móti mjög mörgum einstaklingum frá sínum gömlu nýlendum. Því miður hefur sá hópur að einhverju leyti búið til sitt eigið þjóðfélag til hliðar við hið franska þjóðfélag, eftir því sem forsetinn segir. Hann hefur talað um að hin frönsku gildi fornu sem Frakkar hafa haldið í árhundruð séu nú í hættu. Þessi ágæti maður, Macron Frakklandsforseti, er ekki í Miðflokknum og hefur ekki verið talinn til þeirra sem eru hallir undir þjóðhyggju eða kynþáttahyggju en nú virðist vera að honum finnist þar komið að Frakkar ráði ekki við ástandið sem ríkir í þjóðfélaginu nema með því að gera mjög róttækar breytingar sem munu bitna á þessu sama ágæta fólki og Frakkar fluttu inn á síðustu 50 árum, gæti ég trúað vegna þess að ég á von á því að innflutningur þeirra frá nýlendum sínum hafi byrjað upp úr 1960, það er að nálgast 60 ár, heill mannsaldur hefur liðið og aðlögunin, ef við getum orðað það þannig, hefur ekki lukkast betur en þetta.

Þetta er ekki sagt til að ala á ótta eða útlendingahatri heldur er þetta fært fram hér til að benda fólki á að við þurfum, Íslendingar, að aðgæta að við missum ekki stjórn á því hvernig við veitum fólki aðgang að okkar ágæta landi, hvort sem það eru kvótaflóttamenn eða hælisleitendur eða fólk í leit að alþjóðlegri vernd, heldur þurfum við að kappkosta að við ráðum við, eins og við höfum verið að segja í dag, að taka almennilega á móti fólki þannig að við ráðum við að þjónusta það, eins og við segjum, og ráðum við að hjálpa því að aðlagast okkar þjóðfélagi til þess að það geti blómstrað hér meðal okkar.