151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru o.fl.

769. mál
[15:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er dálítið erfitt að geta í eyðurnar sem hv. þingmaður skilur eftir þegar hann talar um einyrkjana og hvað það er í núverandi stuðningskerfi sem veldur því að viðkomandi teljist ekki uppfylla skilyrði. Ég get þó a.m.k. bent á nokkra hluti sem ég held að skipti máli. Í fyrsta lagi að áður en þetta kerfi viðspyrnustyrkja tók gildi og fram að þeim tíma hafði gilt svokallað kerfi fyrir tekjufall. Tekjufallsstyrkir voru greiddir út fram að viðspyrnustyrkjum. Tekjufallsstyrkirnir voru með lægri þröskulda hvað varðar tekjufallið sjálft þannig að það kann að vera að einyrkjar eða aðrir rekstraraðilar yfir höfuð, sem nutu stuðnings á grundvelli tekjufalls, segjum á bilinu 40–60% í eldra kerfi, hafi rekið sig á þennan 60% þröskuld í viðspyrnustyrkjunum og þannig upplifað að þeir nytu ekki áfram sama stuðnings og áður var, a.m.k. hvað þetta stuðningskerfi snertir.

Nú erum við að breyta þessu. Við erum þá í raun og veru að spegla tekjufallsstyrkjakerfið með nýjum styrkjaflokki fyrir tekjufall upp á 40–60% og við látum það gilda afturvirkt. Vonandi náum við til fleiri aðila og ef við horfum til kostnaðarmatsins sem er hér undir eru auðvitað væntingar um að við náum til mun fleiri aðila. Í þessu máli er hins vegar ekki verið að gera breytingar á fæðingarorlofsréttindum.